136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við búum nú við þá tíma í þjóðfélagsmálunum að manni virðist eins og að hlutirnir gerist frá klukkutíma til klukkutíma eða frá hálftíma til hálftíma og mér virðist eins og öll íslenska þjóðin sitji við internet-vafrann sinn og ýti á „refresh“ ef ég má leyfa mér að nota ensku í ræðupúlti Alþingis. Þjóðfélagið er hálflamað. En það er ekki síst á slíkum stundum sem þörf er á einhverri langtímahugsun. Það er þörf á því að við lítum fram á við og það er þörf á því að við hugum að undirstöðunum og spyrjum okkur spurninga eins og: Hvað ætlum við að gera við fjöregg þjóðarinnar og hvert ætlum við að halda með þjóðfélagið? Hvar eigum við heima í samfélagi þjóðanna?

Eitt af því sem við eigum, og verðum að minna okkur á, og eitt af því sem gerir grunninn traustan í íslensku samfélagi er menntakerfið. Við erum með menntaða og duglega þjóð, hugvitsamlega þjóð, og þetta frumvarp lýtur í mínum huga að því að efla þær undirstöður sem felast í góðu menntakerfi. Það er engin tilviljun að þetta frumvarp gerir það, það er nokkurn veginn samhljóða frumvarpi sem samfylkingarþingmenn hafa lagt fram áður. Ég hef stutt sambærilega hugmynd og ég held jafnvel að öllu leyti samhljóða með því að styðja einfaldlega kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar. Þetta er mál sem Samfylkingin setti ásamt öðrum menntamálum á oddinn fyrir síðustu kosningar. Það þarf engan að undra að ég sem samfylkingarmaður, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sé jákvæður gagnvart þessu máli.

Ég vona heitt og innilega að í samræmi við orð forseta Alþingis fái þetta mál góða og vandaða þinglega meðferð og að því verði skilað úr menntamálanefnd aftur inn í þingsal, kannski betrumbættu. Ef menn telja í þeirri þinglegu meðferð að einhver sterk rök séu fyrir því að samþykkja ekki svona frumvarp er ég auðvitað allur ein eyru.

Með öðrum orðum er afstaða mín til frumvarpsins sú að ég þarf að heyra mjög sterk rök fyrir því að fara ekki þá leið að breyta umræddu hlutfalli námslána í styrk að námi loknu. Það kunna að vera góð rök fyrir því að gera það ekki á þessum tímapunkti. Þau kunna að vera fjárhagsleg. Þau kunna að liggja í því að menn treysti sér ekki í fjárútlátin sem eru rúmur milljarður að þessu sinni en þá finnst mér að menn eigi að ræða það hvort svona lagað eigi að gera í þrepum. Menn eiga líka að ræða hvort eitthvað kemur í staðinn fyrir þessa hugmynd. Mér finnst átakanlegur skortur almennt á styrkjahugsun, á styrkjakerfi í háskólakerfinu. Ég vona að þetta verði vönduð umfjöllun og það verði þá margt annað sem komi upp á borðið ef menn treysta sér ekki til að styðja þetta nákvæmlega svona.

Það eru mörg rök fyrir því að þetta eigi að gera. Í fyrsta lagi lýtur þetta náttúrlega, eins og ég sagði áðan, að eflingu háskólamenntunar í landinu. Ég held að maður þurfi ekki að fara neitt náið út í það. En svo eru líka rök sem snúa að menntakerfinu sem afmörkuðu viðfangsefni. Háskóli Íslands fær fjárveitingar, reiknikerfi Háskóla Íslands, svo að ég noti það sem dæmi, er þannig uppbyggt að háskólinn fær fjárveitingar fyrir útskrifaða nemendur. Þar er hvati fyrir háskólann til að reyna að koma nemendum í gegn. Hann fær beinlínis peninga fyrir hvern einstakan nemanda sem hann kemur í gegn.

Hins vegar er ekki endilega sami hvati fyrir hendi, ekki í sama mæli, hjá nemendum. Þetta getur leitt til ákveðinnar togstreitu í kerfinu. Þetta getur leitt til þess að háskólarnir reyni eftir fremsta megni og jafnvel eftir leiðum sem kunna að vera ekki í takt við ýtrustu kröfur um góða menntun að koma stúdentunum í gegn. Það ástand hefur skapað ákveðinn vanda í deildum háskólans að háskólastúdentar fara í gegnum kúrsana en klára síðan ekki ritgerðina. Það er umtalsvert stór hópur fólks sem bíður með ritgerðina sína. Þá lendir háskólinn í þeim vanda að fólk fer kannski aftur út á vinnumarkaðinn með ritgerðina á herðunum og tekur mörg ár í að klára hana og á meðan fær háskólinn ekki pening fyrir að útskrifa þann nemanda. Með því móti sem er rætt í umræddu frumvarpi með því að mynda þann hvata — og ég vil ekki segja verðlaun, ég tek undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að það er kannski ekki viðeigandi að tala um verðlaun heldur einfaldlega hvata. Þetta er hreinlega fjárhagslegur hvati, ekki síst til að klára ritgerðir — held ég að væri til bóta. Það mundi mynda forsendu til þess að stúdentar og háskólinn gengju í takt þegar kemur að því að klára nám.

Svo virðist vera það einkenni á stúdentaflórunni hér að stúdentar eru dálítið gamlir. Þeir eru á vinnumarkaði og ákveða að leita sér menntunar og taka sér hlé frá vinnu. Þá er mikilvægt — og þetta viljum við, ég held að endurmenntun og símenntun sé einhver besta leiðin til að stuðla að háu menntunarstigi í þjóðfélaginu — að hugsa um styrkjakerfið. Ég held að námslánakerfið eitt og sér hjálpi fólki ekki nægilega mikið sem vill taka sér hlé frá vinnu.

Það er líka ákveðið akútmóment í þessu. Ef við horfum upp á það í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu að hér verði mikið atvinnuleysi, að fyrirtæki fari á hausinn, er einhver besta leiðin til að reyna að reisa þjóðarskútuna við til langs tíma að stuðla að því að fólk geti notið þess tækifæris að leita menntunar. Þá kann að vera þetta extra sem fólk þarf til þess að sjá sér einfaldlega kleift að leita menntunar að hluti námslána sem það fær breytist í styrk að námi loknu. Það kann að vera og menn verða að taka þetta með í reikninginn.

Ég held sem sagt að þetta frumvarp og forsendur þess eigi að reikna vel. Það á að kanna nákvæmlega hvaða áhrif yfirvöld í menntageiranum telji að þetta muni hafa á brottfallstölur og líka kanna forsendur fyrir brotthvarfi eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á. Og við þurfum að skoða hvað þetta þýðir í samanburði við Norðurlöndin.

En það er enginn vafi í mínum huga að þetta er brýnt mál, það á að ræða það og það á að fá bestu mögulegu þinglegu meðferð og hægt er. Ég vona að ekki komi fram nein þannig rök í þeirri meðferð að ekki verði hægt að samþykkja frumvarpið hér á hinu háa Alþingi.