136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það á að heita svo að enn sitji ríkisstjórn í landinu. Samkvæmt þeirri dagskrá sem við þingmenn vorum að undirbúa okkur fyrir lá það fyrir að hæstv. forsætisráðherra yrði fjarverandi og yrði ekki til svara við óundirbúnar fyrirspurnir. Nú er mér tjáð að síðbúin breyting sé orðin á og ég sé að hæstv. forsætisráðherra er mættur í salinn. Ég vil engu að síður segja að mér finnst ekki boðlegt að við förum að ræða hið alvarlega ástand í samfélaginu, þó svo hæstv. forsætisráðherra sé mættur, undir þessum lið, Óundirbúinn fyrirspurnatími, með eins til tveggja mínútna ræðutíma. Við getum ekki boðið þjóðinni upp á það að á örlagadögum sem þessum getum við ekki staðið betur að málum á Alþingi Íslendinga. Úr því að sjálfur hæstv. forsætisráðherra sér ekki sóma sinn í að flytja Alþingi skýrslu um stöðu mála svo að við getum rætt hana með eðlilegum ræðutíma þá held ég að það sé eiginlega betra að sleppa því og annaðhvort fresta því og gera það síðar í dag eða alls ekki. Forsætisráðherra hefur tíma þrátt fyrir annir til að halda langa blaðamannafundi með erlendum aðilum og ég held að hann hljóti að geta gefið Alþingi Íslendinga og þjóðinni svolítið af tíma sínum til að við eigum hér skoðanaskipti um ástandið.