136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hér hefur verið settur fundur með fyrir fram tilgreindri dagskrá. Ekki var gert ráð fyrir minni viðveru en ég féllst að sjálfsögðu strax á að mæta hér þegar kom fram að við það væri gerð athugasemd. Það var samkvæmt skipulagi undanfarinna daga.

Auðvitað er sjálfsagt að flytja þinginu skýrslu og gera eins vel grein fyrir stöðu mála í sölum Alþingis og hægt er þegar við höfum allar þær upplýsingar sem eðlilegt er og rétt að leggja á borð opinberlega. Ég tel hins vegar líka mikilvægt að forustumenn stjórnarflokkanna eigi trúnaðarsamtöl við forustumenn stjórnarandstöðunnar eins og við gerðum á mánudaginn og skal hiklaust beita mér fyrir því að það geti orðið sem allra fyrst.

Þessir hlutir eru að gerast mjög hratt. Það eru að verða miklar breytingar á mjög skömmum tíma og því miður mjög alvarlegar breytingar í þjóðfélagi okkar. Við þurfum að ræða þær og gerum það vonandi á trúnaðarfundi sem ég skal beita mér fyrir mjög fljótlega í dag. Þar verðum við þá að meta hvort málið er á því stigi að heppilegt sé að halda um það sérstakan fund í Alþingi en auðvitað væri hægt að koma honum fyrir jafnvel á morgun eða við fyrsta hentuga tækifæri þegar við höfum rætt saman.