136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:39]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það sem ég ætla að segja gæti ég eins sagt persónulega við hæstv. forseta einhvers staðar í einrúmi en ég tel rétt, í ljósi þess sem hér hefur verið sagt, að segja þetta úr ræðustóli Alþingis. Við sjáum nú að breytingar á þingskapareglunum okkar eru slæmar. Þegar ástand af því tagi sem nú er uppi ríkir þurfum við að hafa meira svigrúm en hæstv. forseti gefur okkur til að ávarpa hæstv. ráðherra. Það skiptir okkur máli að ráðherrar í ríkisstjórninni sitji hér í óundirbúnum fyrirspurnatímum og þeir verði spurðir út úr sem þörf er á að spyrja. Það er ófært að hæstv. forseti velji það með margra daga fyrirvara hvaða ráðherrar eru viðstaddir hvenær. Það kann að vera að þetta sé tæknilegt atriði en í þessari umræðu skiptir það máli.