136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[10:49]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Um leið og maður er kannski ekki beinlínis í stuði til að mæla hér fyrir hefðbundnu þingmáli má kannski segja að á engum öðrum degi í háa herrans tíð hafi verið jafnviðeigandi að mæla fyrir frumvarpi til laga um Efnahagsstofnun. Frumvarpið er flutt af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og gengur út á það að komið verði á fót á nýjan leik ráðgjafarstofnun, rannsóknarstofnun og stuðningsstofnun við hagstjórn í landinu sem taki að verulegu leyti að sér það hlutverk sem Þjóðhagsstofnun hafði áður en hún var lögð niður.

Eins og segir um Efnahagsstofnun í 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Hún skal fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum, vera Alþingi og ríkisstjórn til ráðuneytis og sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, fræðimönnum, fag- og fræðastofnunum og öðrum aðilum til aðstoðar eftir því sem efni standa til.“

Við hugsum okkur það fyrirkomulag að Efnahagsstofnun starfi á vegum Alþingis og hafi að því leyti sambærilega stöðu og Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis og sé um leið engum háð í störfum sínum, með öðrum orðum eins óháð stofnun og kostur er að hafa í stjórnskipulagi okkar. Þjóðhagsstofnunin sáluga starfaði á vegum framkvæmdarvaldsins eins og kunnugt er. Hún átti að vera sjálfstæð í störfum sínum og ég held að henni hafi lengst af tekist að njóta trausts og vinna faglega. Til hennar leituðu alþingismenn og nefndir þingsins, til hennar leituðu aðilar vinnumarkaðarins og fleiri og hún var meginstofnunin þegar kom að því að safna saman upplýsingum, vinna úr og greina þjóðhagsupplýsingar og matreiða þær, sérstaklega með skýrslum sínum vor og haust. Um áratugaskeið var stuðst við gögn frá Þjóðhagsstofnun sem aðalgrunngögn við undirbúning fjárlaga, þegar gerðar voru ráðstafanir í efnahagsmálum, þegar lagt var mat á frumvörp eða hugmyndir um breytingar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum og öðru slíku.

2. gr. frumvarpsins fjallar um þau verkefni sem Efnahagsstofnun skuli sinna. Í aðalatriðum er um að ræða sömu verkefni og Þjóðhagsstofnun fór með, að færa þjóðhagsreikninga, semja þjóðhagsspár og áætlanir, að semja og birta opinberlega tvisvar á ári, vor og haust, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum. Þar yrðu reiddar fram upplýsingar um hluti eins og framleiðslustarfsemina í landinu, neyslu í þjóðfélaginu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald, atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuveganna og fjármál hins opinbera.

Stofnunin kæmi niðurstöðunum á framfæri fyrst og fremst með hefðbundnum skýrslum en einnig kæmi hún niðurstöðum sínum fyrir almenningssjónir, eftir því sem kostur væri, og þá ekki síst þeim rannsóknum og athugunum sem hún kysi sjálf að ráðast í. Þar er nokkur breyting á að í þessu frumvarpi er frumkvæðisskylda eða frumkvæðisvald stofnunarinnar gert miklu sterkara en það var hjá Þjóðhagsstofnun. Í gömlu ákvæðunum um Þjóðhagsstofnun var í sjálfu sér ekki gert ráð fyrir því að hún hefði mikið sjálfstætt frumkvæði að því að rannsaka mál heldur væri fyrst og fremst þjónustustofnun og ynni samkvæmt óskum annarra.

Efnahagsstofnun á einnig að annast hagrænar og hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð fyrir Alþingi. Hér er Alþingi orðið frumandlag og ríkisstjórn er talin upp númer tvö. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að með því viljum við árétta að þessi stofnun starfar í skjóli Alþingis og er í fyrsta lagi Alþingi til aðstoðar og ráðuneytis við fjárlaga- og fjárstjórnarverkefni. Engu að síður mundi stofnunin vinna sjálfstætt og láta alþingismönnum, nefndum Alþingis og þingflokkum í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál og vera Alþingi sem fjárveitinga- og fjárstjórnarvaldi almennt til ráðuneytis. Efnahagsstofnun mundi veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um gæti samist og nánar yrði kveðið á um. Síðan mundi stofnunin að sjálfsögðu sinna þeim verkefnum sem henni kynnu að verða falin í öðrum lögum eða með stjórnvaldsfyrirmælum.

Í 3. gr. er að því vikið að Efnahagsstofnun þarf að sjálfsögðu að hafa ríkar heimildir til að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar. Þar mundi hún njóta sömu stöðu og Hagstofa Íslands og sömu viðurlög mundu liggja við ef brugðið yrði út af þeirri skyldu að veita henni upplýsingar. Að sjálfsögðu er ljóst að Efnahagsstofnun þyrfti að hafa náið samstarf við Hagstofu Íslands og aðra aðila, sem að einhverju leyti starfa á sama sviði og safna hliðstæðum upplýsingum, til þess að koma í veg fyrir tvíverknað og óæskilega skörun.

Kostnaður af starfsemi Efnahagsstofnunar mundi að sjálfsögðu greiðast úr ríkissjóði og vera á fjárlögum undir Alþingi. Forsætisnefnd mundi hafa sambærilegt hlutverk gagnvart Efnahagsstofnun og hún hefur gagnvart Ríkisendurskoðun og að hluta til gagnvart umboðsmanni Alþingis. Forsætisnefnd Alþingis mundi ráða forstöðumann Efnahagsstofnunar, að undangenginni auglýsingu, til fimm ára í senn. Gerðar yrðu skilgreindar fagkröfur til forstöðumanns um að hann hefði lokið háskólaprófi í þjóðhagfræði eða hliðstæðu námi og síðan mundi, eins og nú er yfirleitt um hlutina búið, forstöðumaður annast ráðningu annarra starfsmanna stofnunarinnar. Rétt er að hafa þarna sambærileg ákvæði og er að finna við hliðstæðar aðstæður um að forsætisnefnd Alþingis gæti, að fengnu samþykki Alþingis, vikið forstöðumanni Efnahagsstofnunar úr starfi ef til slíks þyrfti að koma. Laun forstöðumanns yrðu ákveðin af kjararáði með sama hætti og gildir um hliðstæða embættismenn.

6. gr. fjallar um þagnarskyldu og trúnað og skýrir sig í raun alveg sjálf.

Í 7. gr. er vikið að því að forsætisnefnd mundi setja nánari reglur um starfsemi Efnahagsstofnunar að undangengnu samráði við forstöðumann og fulltrúa starfsmanna stofnunarinnar. Þetta yrði stofnun þar sem starfsmannalýðræði yrði í hávegum haft og sjálfsagt að búa svo um hnúta að starfsmenn eða félag starfsmanna ætti aðild að því að setja starfseminni starfsreglur og -ramma.

Í 8. gr. er komið inn á að eðlilegt er að í framhaldi af setningu laga þessara yrðu lög um Hagstofu Íslands yfirfarin og endurskoðuð eftir atvikum og jafnvel ákvæði fleiri laga sem efni kunna að standa til.

Í 9. gr. er hefðbundið gildistökuákvæði.

Við leggjum á það mikla áherslu, samanber ákvæði til bráðabirgða I, að unnið verði hratt að því að koma þessari stofnun á fót. Oft var þörf en nú er nauðsyn, mundi einhver segja, og væri Alþingi tilbúið til þess að vinna röggsamlega að þessari lagasetningu og ganga frá málinu nú í október eða jafnvel fyrir 20. október eða svo mætti í beinu framhaldi ráða forstöðumann og hefja undirbúning starfseminnar sem gæti þá hafist að minnsta kosti í einhverjum mæli strax 1. janúar. Að sjálfsögðu kæmu þá í fjárlög heimildir til fjárveitinga til stofnunarinnar en kostnað sem til félli innan ársins 2008 mætti greiða úr ríkissjóði af fjáraukalögum.

Ákvæði til bráðabirgða II eru að stofni til samhljóða grein í frumvarpi um ráðstafanir í efnahagsmálum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttum í byrjun marsmánaðar. Þar lögðum við til að við þær erfiðu aðstæður og í ljósi þeirra miklu erfiðleika sem við töldum okkur þá sjá fram undan í efnahagslífi landsmanna yrði komið á sérstöku þjóðhagsráði og búinn til samstarfsvettvangur allra helstu aðila samfélagsins til að takast á við hlutina og glíma við vandann.

Tillaga var að forsætisráðherra skipaði ráðið með einum fulltrúa frá hverjum þingflokki á Alþingi, með fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Sambandi lífeyrissjóða. Að sjálfsögðu gætu fleiri aðilar gjarnan bæst þarna við eins og Samband sveitarfélaga og jafnvel fulltrúar einhverra stórra heildarsamtaka. Ráðið yrði undir forustu formanns sem bankastjórn Seðlabanka Íslands mundi skipa. Að því kæmu úr mismunandi áttum allir helstu aðilar á sviði fjármálalífs og atvinnulífs og þjóðarbúskapar. Við leggjum mikla áherslu á að ráðið yrði þannig samansett að þar yrði jafnvægis gætt milli kynja og væri hverjum og einum aðila í hverju tilviki gert skylt að tilgreina bæði karl og konu til setu í ráðinu. Forsætisráðherra bæri ábyrgð á því að endanleg samsetning ráðsins endurspeglaði vel kynjahlutföll.

Á meðal verkefna þjóðhagsráðs þessa yrði að veita stjórnvöldum ráðgjöf, meta framvinduhorfur í þjóðarbúskapnum, gefa mánaðarlega álit um stöðu mála. Hér var sett inn, og vel að merkja þetta var sett fram í byrjun marsmánaðar síðastliðins, að ráðið skyldi einnig skoða hvernig styrkur lífeyrissjóðanna mætti nýtast best innan hagkerfisins t.d. í samhengi við framtíðarskipan húsnæðismála og til að virkja innlendan skuldabréfamarkað en þó þannig að lífeyrissparnaður landsmanna væri ætíð tryggður eins og best væri mögulegt. Þjóðhagsráði væri að sjálfsögðu heimilt að ráða sér starfsmann og kaupa sér sérfræðiþjónustu eftir þörfum og mundi sá kostnaður greiðast úr ríkissjóði. En að sjálfsögðu mundi Efnahagsstofnun, ef hún kæmi til sögunnar, vera þjóðhagsráði sérstaklega til aðstoðar og veita starfi þess stuðning.

Ég held að þessi ákvæði séu, herra forseti, því miður enn í fullu gildi og sennilega brýnni nú en þau hafa nokkru sinni áður verið. Þegar Þjóðhagsstofnun var á sínum tíma lögð niður var m.a. notað því til rökstuðnings að aðrir aðilar væru að eflast eða gætu eflst þannig á þessu sviði að þeir tækju við þeim verkefnum. Þá var jafnvel vísað sérstaklega til rísandi stjarna í hinu íslenska sólkerfi bankanna og rætt um að greiningardeildir þeirra gætu að miklu leyti tekið þetta hlutverk að sér. Ég þarf ekkert að segja meira um það mál.

Hagstofunni voru vissulega falin ákveðin verkefni sem Þjóðhagsstofnun hafði áður og þegar upp var staðið varð enginn sparnaður af því að leggja Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að það er auðvelt að sýna fram á að útgjöld annarra aðila af fjárlögum að mestu leyti jukust að minnsta kosti að sama skapi því sem Þjóðhagsstofnun velti á sínum síðustu starfsárum. Á fjárlögum ársins 2002 var 132 millj. kr. varið til Þjóðhagsstofnunar en 144 millj. kr. var ári seinna varið til þeirra verkefna sem fluttust frá stofnuninni, þ.e. til Hagstofunnar, aukinn fjárstuðningur til hagdeilda aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.

Ég held að staðan í dag, reynsla okkar af undanförnum dögum, vikum og mánuðum, sé kannski öflugasta röksemdin fyrir því að þessa stofnun eigi að setja á fót fljótt og fumlaust og hún eigi að verða eitt af okkar megintækjum þegar kemur að því gríðarlega verkefni sem nú er fram undan að ná tökum á ástandinu og byggja Ísland upp á nýjan leik sem velferðar- og velmegunarsamfélag.

Þær aðstæður sem sköpuðust þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður voru mjög óþægilegar. Þær voru t.d. mjög óþægilegar fyrir stjórnarandstöðuna sem hafði þá ekki lengur stofnun, sæmilega óháða stofnun, fagstofnun sem naut álits og virðingar, til að snúa sér til — til að senda erindi, til að fá álit, til að fá útreikninga og annað í þeim dúr. Fjármálaráðuneytið tók að umtalsverðum hluta við hinu ráðgefandi og álitsgefandi hlutverki Þjóðhagsstofnunar. Fjármálaráðuneytið gengur nú frá þjóðhagsspám. Þær eru að vísu mun rýrari í roðinu en þær sem Þjóðhagsstofnun birti áður. Og það segir sig sjálft að aðstaða þingmanna og þingflokka, t.d. í stjórnarandstöðu, er önnur ef menn eiga að fara að snúa sér til pólitísks ráðherra eða eininga innan ráðuneytis sem heyra undir pólitískan ráðherra sem skipa hina meginfylkingu stjórnmálanna í meiri hlutanum.

Með þessu er að sjálfsögðu ekki verið að kasta neinni rýrð á það starf sem unnið hefur verið innan veggja fjármálaráðuneytisins án efa á faglegum forsendum samkvæmt bestu vitund. En þær aðstæður sem þarna verða til eru öllum mönnum ljósar og sá eðlismunur sem er á því fyrir þingmenn, þingflokka — og aftur endurtek ég sérstaklega í stjórnarandstöðu — að snúa sér til algjörlega óháðrar og sjálfstæðrar hagstofnunar. Við gætum svo rætt um það hvernig þjóðhagsspár og hagspár og útreikningar hafa reynst okkur á undanförnum missirum og mánuðum. En ég ætla ekki að gera það hér tímans vegna. Ég hef stundum gert það áður að bera þær saman við raunveruleikann og það hefur satt best að segja verið harla ævintýralegt hvernig spár hafa reynst meira og minna algjörlega út í loftið á undanförnum allmörgum árum og eru ekki síst núna, samanber þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá haustinu 2007. Hefur einhver kíkt í það plagg nýlega? Það þarf ekki að segja meira.

Ég held að það verði mikill styrkur fyrir okkur öll, fyrir Alþingi, fyrir þingmenn, fyrir þingnefndirnar, einkum og sér í lagi fjárlaganefnd, efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd, að fá slíka stofnun sér til stuðnings og hún verði hér innan veggja Alþingis. Ég held að það verði mikill styrkur fyrir ríkisstjórn að hafa slíka óháða fagstofnun. Fá þaðan gögn, upplýsingar, ráðgjöf og sjálfstætt aðhald. Sjálfstæð álit sem ekki er ungað út innan veggja ráðuneytanna sjálfra. Glöggt er gestsaugað segir nú þar.

Ég held líka að við séum að súpa seyðið af því að nokkru leyti nú að við höfum ekki haft síðustu árin nógu aðgengileg gögn um mikilsverðar upplýsingar eins og t.d. tekjudreifingu, jöfnuð eða ójöfnuð í samfélaginu. Til dæmis hafa verið deilur um hluti eins og það hvernig skattbreytingar á undanförnum árum koma út gagnvart almenningi og tekjujöfnunarhlutverki skattkerfis eins og ríkissjóðs. Og hvert höfum við þingmenn getað leitað um óháð álit eða óháð mat á því? Til fjármálaráðuneytisins, til samtaka aðila vinnumarkaðarins, sem er nú málið nokkuð skylt, eða þá að okkur hefur staðið til boða að kaupa dýrum dómum álit einhverra fræðimanna utan úr bæ sem að sjálfsögðu er góðra gjalda vert. En með fullri virðingu kemur það ekki í sama stað niður og að öflug sjálfstæð fagstofnun safni öllum þessum gögnum saman, greini upplýsingarnar og flokki og vinni úr þeim og sé á hverjum tíma hvenær sem eftir er leitað tilbúin að reiða fram upplýsingar og ráðgjöf á grundvelli þeirra.

Ég held ég þurfi ekki að rökstyðja frekar mikilvægi þess að um Efnahagsstofnun verði búið eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég tel að það fyrirkomulag sem að góðu heilli var valið þegar Ríkisendurskoðun var flutt út úr framkvæmdarvaldinu og færð undir Alþingi hafi reynst vel. Ekki er nokkur minnsti vafi á því að það hefur stóreflt Ríkisendurskoðun. Hún hefur fengið sjálfstæðari stöðu. Þó að hún hefði að mínu mati á köflum mátt veita framkvæmdarvaldinu miklu öflugra aðhald en hún hefur gert þá hafa þeir hlutir þó verið að þróast í rétta átt. Ríkisendurskoðun hefur smátt og smátt fjarlægst uppruna sinn og öðlast aukið sjálfstraust og kjark í ljósi þess að vera óháð og ósnertanleg í skjóli Alþingis.

Hvað varðar umboðsmann Alþingis þá held ég að það sé eitthvert glæsilegasta dæmið um velheppnaða breytingu og framþróun í stjórnarfari okkar sem hægt er að benda á. Embætti umboðsmanns hefur staðið sig feikilega vel og hefur algjörlega náð að byggja sig upp sem sá faglegi, óháði aðili sem almenningur í landinu getur alltaf snúið sér til ef hann telur sig órétti beittan eða á sig hallað með óvandaðri stjórnsýslu af einhverju tagi.

Það er oft sagt á hátíðarstundum að menn hafi áhuga á því að efla Alþingi. Ótrúlegustu menn verða þingræðissinnar þegar þeir koma t.d. í þennan ræðustól eða þá langar til að halda fallegar ræður. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að því vikið með býsna fallegum orðum að efla þurfi Alþingi og eftirlitshlutverk þess og búa betur að þinginu og þingmönnum og þar fram eftir götunum. Forseti þingsins hefur einnig haft uppi fögur orð um vilja sinn í þessum efnum og ekki dreg ég hann í efa. Forseti hefur m.a., ef ég veit rétt, sett af stað sérstaka úttekt á eftirlitshlutverki Alþingis. Það er vel. Ég held að það sé nú heldur betur gott að fá stofnun af þessu tagi til að styðja við það hlutverk. Ég held að það væri allt saman á sínum stað og til framfara en svo þurfa menn auðvitað að hafa leyfi til að ræða um hlutina hér á hinu háa Alþingi, tala um og nota þau gögn sem fram eru reidd. Þannig að mikilvægur liður í eflingu Alþingis og virðingar þess er málfrelsið.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að stuðningur við þetta mál hefur komið úr, mér leyfist nú vonandi að segja, öllum áttum. Á síðustu vikum og mánuðum hafa nánast allir sem hafa tjáð sig um þessi mál farið að viðurkenna að það voru mistök að leggja Þjóðhagsstofnun niður, meira að segja aðilar sem stóðu að því. Ef ég man rétt þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins, jafnvel fleiri en einn, nánast viðurkennt að sennilega hafi það verið mistök að leggja Þjóðhagsstofnun niður.

Í greinargerð með frumvarpinu eru nefndir nokkrir aðilar. Það er að sjálfsögðu á engan hátt tæmandi listi. Þar er t.d. nefnt að fyrrverandi bankastjóri Seðlabankans, Jónas Haralz, sem mjög hefur verið nefndur til sögunnar í umræðum um þjóðmál á Íslandi upp á síðkastið, hafi sagt í Fréttablaðinu 8. september sl. að það vanti ráðgefandi stofnun til að starfa með stjórnmálamönnum. Þorvaldur Gylfason prófessor hefur margoft gagnrýnt að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Fjölmargir þingmenn úr ríkisstjórnarflokkunum hafa lýst þessu sama. Formaður Samfylkingarinnar hefur lýst þessu sama, þingmenn úr Framsóknarflokknum og að sjálfsögðu lá fyrir stuðningur þingmanna úr öllum stjórnarandstöðuflokkum á síðasta kjörtímabili, m.a. með því að allir viðstaddir þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður.

Við höfum ekki bara mótmælt því allan tímann, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, heldur höfum við æ síðan talað fyrir því að hún yrði endurreist og flutt um það þingmál. Það er m.a. að finna í 9. gr. frumvarps okkar til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum sem flutt var í marsmánuði. Ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, að það séu allar ástæður til að ætla að borðleggjandi þingmeirihluti sé fyrir þessu máli, og að minnsta kosti þingmenn úr fjórum þingflokkum, ef ekki öllum þingflokkum, séu líklegir til að styðja það.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ekki er að mínu mati þörf á því að þessi stofnun verði óskaplega mikil að umfangi. Það verður að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því að fljótlega eftir að starfsemi hennar væri komin í fullan gang gæti það orðið að umfangi svipað og rekstur Þjóðhagsstofnunar var á sínum tíma. Þó er það ekki einu sinni víst að svo þyrfti að vera. Það kann að vera að að einhverju leyti gæti Hagstofan áfram haldið utan um vissa hluti sem hún hefur gert núna undanfarin ár. Það skiptir að sjálfsögðu ekki öllu máli í kostnaðarlegu samhengi hvort ríkið greiðir þá vinnu sem rekstrarkostnað Hagstofunnar eða rekstrarkostnað Efnahagsstofnunar. Það kemur úr sama vasanum. En verkefnin þarf að vinna. Þessar upplýsingar þurfa að vera til reiðu og það þarf að vinna úr þeim. Það hefur reynslan heldur betur, og dýrkeypt, kennt okkur að undanförnu að í þessum efnum er dýrt að spara.

Það eru miklir hagsmunir í húfi og þegar þjóðarbúið og hagstjórn þjóðarbúsins leiðir af sér gríðarleg áföll og töp eins og við horfumst nú í augu við verða kannski 130–150 millj. kr. í rekstrarkostnað stofnunar af þessu tagi ekki háar tölur, og sá kostnaður fellur til í dag. Hann gerir það bara með öðrum hætti og óskilvirkari að mínu mati. Það var algjör misskilningur að í því væri fólgin einhver framför að dreifa þessari vinnu á marga aðila í staðinn fyrir að hafa hana alla í einni öflugri sjálfstæðri fagstofnun. Það er ekki skilvirkt kerfi að sáldra peningum til Hagstofunnar, fjármálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, ráðgjafarfyrirtækja úti í bæ sem eru keypt til þess að gera skýrslur o.s.frv. í staðinn fyrir að safna mannauði, þekkingu, tækjum og búnaði saman á einn stað þannig að hægt sé að vinna þetta þar samræmt með skilvirkum hætti.

Ég held að ég hafi lokið, virðulegi forseti, við að mæla fyrir og rökstyðja þetta mál. Ég leyfi mér að vona að það fái málefnalega og vandaða en fljóta skoðun hér í þinginu. Ég er ekki að biðja um afgreiðslu á örfáum klukkutímum eins og neyðarlögin á mánudaginn var. Nei, en t.d. að Alþingi tæki sér nú tak og fengi botn í það mál á næstu tveimur til þremur vikum hvort þetta sé eitt af mörgu sem við eigum að gera til þess að reyna að búa okkur betur í stakk til að takast á við verkefni komandi ára.

Ég hef ríka sannfæringu fyrir því að þetta sé rétt. Fyrir hönd Alþingis og fyrir hönd þjóðarhagsmuna er ég alveg sannfærður um að þetta væri framfaraskref. Menn eiga að vera nógu stórir í sniðum til þess að viðurkenna mistök og sjá að sér. Það mæla því mjög fáir bót, að ég held, að það hafi verið til einhverra framfara að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Ég held því að við eigum að stíga þetta skref og gera það í samræmi við þær hugmyndir sem við höfum núna bestar um fyrirkomulag þessara mála. Þess vegna höfum við m.a. valið að setja á stofnunina nýtt nafn sem endurspeglar kannski betur um leið efnahagshlutverk hennar og búa henni starfsaðstæður í skjóli Alþingis eins og hefur gefist vel í öðrum tilvikum.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og ég geri ráð fyrir því að best fari á því að það fari til efnahags- og skattanefndar.