136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þingsalur er um þessar mundir líklega einhver rólegasti staður á Íslandi. Hér sitjum við og höfum það huggulegt þrjú eða fjögur ásamt forseta Alþingis. Það eru sjómaður, leikstjóri og sjálfur er ég heimspekingur en presturinn hefur nýyfirgefið þingsal sem er verr og miður. Auðvitað hefur það yfirbragð þess að við séum að spila hér á fiðlu meðan Róm brennur að við skulum vera að ræða hér ýmis þingmál með hefðbundnum hætti en ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að þrátt fyrir að válegir tímar séu í samfélaginu er engu að síður mikilvægt að reyna að halda áfram daglegum viðfangsefnum. Kannski er það eitt besta sálfræðilega ráðið sem hægt er að gefa þjóðinni á þessum óvissutímum á meðan óvissan er svona mikil að reyna þá alla vega að ríghalda í vissu daglegra viðfangsefna eftir því sem það er unnt.

Hér bregður reyndar svo við að við erum að ræða frumvarp um mál sem er einstaklega vel við hæfi á þessum tímum. Það liggur fyrir að gríðarlegt uppbyggingarstarf er fyrir hendi í íslensku samfélagi og ég held að það sé full ástæða til að álykta að við þurfum svona stofnun við þær aðstæður. Ég held að margir þingmenn taki undir það ef ég þekki þá rétt og tek mið af fyrri yfirlýsingum þeirra og sömuleiðis ýmsir hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu. Raunar má segja að við hefðum þurft stofnun sem þessa í þeim atburðum sem hafa gerst og þá ekki aðeins undanfarnar vikur og mánuði heldur undanfarin ár.

Þjóðhagsstofnun var lögð niður um síðustu aldamót. Þar fór í fararbroddi þáverandi forsætisráðherra, í þeirri aðgerð og voru það mikil mistök að mínu mati og ég held að sá maður geri enn mistök þó að það sé ekki til umræðu hér. Þjóðhagsstofnun gegndi t.d. lykilhlutverki við undirbúning þjóðarsáttarsamninganna á sínum tíma. Það var sú stofnun sem aðilar að þjóðarsáttarsamningunum gátu leitað til, fengið útreikninga og mat á ýmsum forsendum sem urðu að vera fyrir hendi áður en gengið var til þeirra víðfeðmu samninga. Þar sannaði sjálfstæð og óháð stofnun — þó að hún hafi verið undir framkvæmdarvaldinu á þeim tíma — gildi sitt. Auðvitað var Þjóðhagstofnun ekki óskeikul. Það hefði mátt betrumbæta hana en það var svo sannarlega ekki ástæða til að leggja hana niður, hvað þá að gera það nánast í sömu andrá og við gáfum gengið frjálst á Íslandi og krónan varð fljótandi. Sú aðgerð eins og sér fleytti okkur inn í alþjóðamarkaðshagkerfið þannig að við urðum fullkomlega undirseld því, sem kunna að hafa verið sterk rök fyrir að gera, en þeim mun meiri ástæða var þó til að efla baklandið í fagþekkingu hér innan lands til þess að hægt væri að stjórna því vel og faglega öllu saman.

Ekki hefur skort fagþekkingu á Íslandi í efnahagsmálum, hún hefur hins vegar verið mjög dreifð. Hún hefur á stundum verið sveipuð tortryggni vegna þess að hún heyrir beint undir pólitískt kjörna ráðherra eða undir greiningardeildir bankanna. Fagþekkingin hefur einnig heyrt undir alls konar samtök á vinnumarkaði þannig að ekki hefur svo sem skort á hana sem slíka en það hefur hins vegar vantað upp á að hlustað væri á þá sem búa yfir henni. Okkur hefur vantað stofnun sem við teljum okkur geta treyst öðrum fremur. Það er aðeins eitt ráð við því ef við teljum að slíkt vanti, að koma á fót slíkri stofnun á faglegan hátt og efla hana til allra góðra verka vegna þess að við þurfum að eyða tortryggni í samfélaginu í garð efnahagsmála. Það held ég að við gerum með því að stofna einhvers konar þjóðhagsstofnun að nýju eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi þingflokks Vinstri grænna um stofnun Efnahagsstofnunar.

Ég tel að það ætti að vera meirihlutastuðningur við að gera eitthvað í þeim dúr. Formaður Samfylkingarinnar hefur lýst því yfir að það hafi verið mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Hún hefur jafnframt lýst því yfir að stofna eigi þjóðhagsstofnun að nýju hvort sem hún verði kölluð Efnahagsstofnun eða eitthvað annað. Varaformaður Samfylkingarinnar hefur einnig lýst því yfir. Ég tel að atburðarás undanfarinna mánaða og vikna ætti að vera mjög sterk rök fyrir því að gera það.

Nú ætla ég að víkja aðeins að frumvarpinu og greinum þess. Ég hegg eftir því í frumvarpinu, sem einhverjir kunna að telja smáatriði, að talað er um að yfirmaður Efnahagsstofnunar þurfi að hafa gráðu í þjóðhagfræði. Ég held að það sé fullþröng skilgreining á þeirri hagfræði sem þarf að fara fram innan Efnahagsstofnunar og því ástæðulaust að krefjast þess að yfirmaðurinn hafi endilega gráðu í þeirri tilteknu grein hagfræðinnar. Ég held að spurningar eins og starfsskilyrði fyrirtækja og rekstrargrundvöllur heimilanna muni koma til kasta Efnahagsstofnunar. Það þarf að ræða samkeppnisgrundvöll á markaði, skattkerfið og áhrif þess á tekjujöfnun, forsendur fyrirtækjarekstrar og heimilisrekstrar og það þarf að skoða verðlagsþróun. Ég tel að jafnframt muni ýmsar „míkró“-hagfræðilegar spurningar koma til kasta Efnahagsstofnunar þannig að það er fullkomlega ástæðulaust að gera endilega þá kröfu til yfirmanns Efnahagsstofnunar að hann hafi gráðu í þjóðhagfræði. Það þarf einnig að skoða hvernig unnið er skipulega og á sem hagkvæmastan hátt að nýtingu náttúruauðlinda hér á landi sem verður eflaust ein stærsta spurning komandi áratuga. Það hefði verið gott í þeirri nýtingu náttúruauðlinda sem þegar hefur farið fram á Íslandi að hafa slíka stofnun ef við lítum í baksýnisspegilinn.

Mér finnst gott að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að Efnahagsstofnun heyri undir Alþingi. Ég held að það sé full þörf á því að efla Alþingi og á því að alþingismenn hafi aðgang að slíkri stofnun. Í því starfi öllu saman þurfa menn auðvitað að hafa í huga að þó að Efnahagsstofnunin heyri undir Alþingi og eftir fremsta megni óháð — hún heyrir þá alla vega ekki beint undir pólitískt kjörna ráðherra með tilheyrandi tortryggni — verður samt að hafa í huga að þó að hún sé óháð upp að ákveðnu marki er hún ekki endilega óskeikul. Menn verða alltaf að hafa það mjög fast í huga, sérstaklega þegar kemur að efnahagsmálum, að þau eru í raun mjög erfið fræði. Eitt af því sem þar er mikið deilt um er hversu auðvelt er að nýta sér forsendur hagfræðinnar til að spá fram í tímann. Við verðum því alltaf að hafa hugfast að hér er langt í frá um óskeikul fræði að ræða. Það eru ekki rök fyrir því að leggja árar í bát eða að við eigum ekki að efla fagþekkingu á sviði hagfræði á Íslandi. Það er svo sannarlega verk að vinna í þeim efnum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir stofnun þjóðhagsráðs. Ég sé ekki annað en að a.m.k. þingflokkur Samfylkingarinnar ætti að vera jákvæður gagnvart slíkum hugmyndum. Fyrir síðustu kosningar lagði Samfylkingin upp með að samráð við atvinnulífið, samráð þingsins og atvinnulífsins og samráð ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins, yrði eflt til muna innan slíks ráðs. Þar er t.d. vísað til Írlands í því sambandi. Írar hafa lengi með góðum árangri haft ráð af því tagi sem sér um að reyna að rýna í þróunina í efnahagsmálum og gera tillögur að úrræðum ef vandi steðjar að. Mér finnst það því góð hugmynd í grundvallaratriðum. Síðan er það spurning hvort það eigi að vera sérstakt mál eða að tilheyra þessu frumvarpi.

Herra forseti. Ég held því í stuttu máli að hér sé á ferðinni gott frumvarp sem er full ástæða til að styðja, ekki síst nú í því mikla uppbyggingarstarfi sem fyrir höndum er í íslensku samfélagi.