136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:48]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Efnahagsstofnun frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og vorum rétt í þessu að fá afar jákvæðar móttökur frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar, Guðmundi Steingrímssyni, sem rétt er að þakka og ég tek undir þau orð hans að flokkar hafa rætt þetta aðrir en við, að það sé þörf á því að gera eitthvað í þessum efnum og þegar við blasir það ástand sem við horfumst í augu við núna þá verður þessi þörf ekki bara verulega knýjandi heldur verður hún himinhrópandi.

Mig langar til að gera einn tiltekinn þátt þessa máls að umtalsefni í ræðu minni. Ég þarf ekki að ítreka það sem þeir kollegar mínir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason hafa sagt í sínum ræðum en mig langar til að beina augum og athygli hlustenda og þjóðarinnar að því að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir þessum kynjavinkli sem við í femínískum flokki höfum verið að reyna að flétta inn í öll okkar þingmál og alla okkar pólitík og öll okkar stjórnmál. Til marks um það er grein sem ég skrifaði í dagblaðið 24 stundir í morgun þar sem ég fjallaði um efnahagsumræðuna séða með kynjagleraugum.

Það er mjög mikilvægt á þessum tímum að við lærum af mistökum fortíðarinnar sem að hluta til eru fólgin í því að það hafa verið karlar sem hafa stjórnað efnahagslífi landsmanna. Karlar hafa stjórnað peningastofnununum okkar. Karlar hafa setið í bankaráðunum og núna þegar við stofnum skilanefndirnar sem eiga að gera upp þá banka sem eru að komast í þrot þá er ein kona í þessum skilanefndum sem búið er að skipa eftir því sem ég best veit. Það er ekki hægt að sætta sig við það endalaust að annað kynið sem skipar þessa þjóð til helminga á við karla komi ekki að stjórn efnahagsmála. Ráðherrarnir sem stjórna efnahagsmálum hafa í yfirgnæfandi fjölda tilvika verið karlar. Forsætisráðherrar, fjármálaráðherrar og bankamálaráðherrar eru yfirleitt og iðulega karlar.

Í hugmyndum okkar vinstri grænna fléttum við inn kynjasjónarmiðin þannig að það sem þarf að horfa til er jöfn aðkoma beggja kynja. Í bráðabirgðaákvæðinu í frumvarpinu tökum við það sérstaklega fram að meðan við erum að brúa bilið og leggja inn á þessa braut, að stofna þessa nýju efnahagsstofnun, þá ætlum við að setja á stofn þjóðhagsráð þannig að það starfi frá gildistöku laganna til ráðuneytis stjórnvöldum. Það verði fjölskipað ráð skipað af forsætisráðherra með einum fulltrúa frá hverjum þingflokki á Alþingi, fulltrúum frá hverjum eftirtalinna aðila: Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Sambandi lífeyrissjóða og það er tekið fram að það skuli tilnefna til setu í ráðið í hverju tilviki bæði karl og konu og forsætisráðherra hlutist til um að fullt kynjajafnvægi ríki við val á endanlegri samsetningu ráðsins.

Þessi hugmynd um þjóðhagsráð er raunar komin úr eldra þingmáli frá Vinstri grænum. Við vorum með á síðasta þingi stórt og mikið frumvarp um ráðstafanir í efnahagsmálum og þar gerðum við ráð fyrir þjóðhagsráði sem við í sjálfu sér heimfærum núna inn í þessa nýju stöðu og gerum ráð fyrir að það starfi að minnsta kosti næstu tvö árin meðan Efnahagsstofnunin er að komast á laggirnar. Við teljum að það sé þörf á víðtæku samstarfi allra helstu burðarása íslensks þjóðarbúskapar til að glíma við þau viðfangsefni sem við blasa í efnahagslífinu. Þetta sögðum við í greinargerð með því frumvarpi sem við fluttum varðandi ráðstafanir í efnahagsmálum á síðasta vetri og töldum mikilvægt að slíkt þjóðarsáttarandrúmsloft skapaðist og við næðum samræmdum takti í hagstjórn. Til að það mætti gerast þyrfti víðtækt samráð og samvinnu allra stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila á vinnumarkaði, í atvinnulífi og á fjármálamarkaði og, nota bene, beggja kynja.

Ég hef saknað þess í umræðunni á síðustu dögum að við höfum ekki heyrt meira í hagfræðingum og sérfræðingum úr hópi kvenna. Við höfum í yfirgnæfandi tilvikum heyrt í hagfræðingum og sérfræðingum sem hafa verið karlar. Á viðskiptasíðu Fréttablaðsins sjáum við hins vegar í dag viðtal við Eddu Rós Karlsdóttur sem mér finnst að hafi verið sorglega fjarri núna síðustu dagana í þeirri orrahríð sem staðið hefur. Hún talaði einmitt um í því viðtali sem fréttablaðsmenn eiga við hana nauðsynina á samráði og breiðri yfir nálgun hlutanna. Þegar málin eru jafnalvarleg og þau eru nú skiptir okkur verulegu máli að leita sem víðast ráða. Edda Rós Karlsdóttir segir í viðtalinu að það skipti mestu máli að horfast í augu við þá staðreynd að við séum ekki á réttri leið. Sú leið sem við höfum farið við stjórn efnahagsmála hefur leitt okkur inn í blindgötu og það er algerlega nauðsynlegt að taka nýjan kúrs, nýja stefnu. Það er lífsspursmál fyrir þjóðina. Álit alþjóðasamfélagsins á okkur hefur virkilega beðið hnekki og ef við ætlum að endurreisa það álit þurfum við að grípa til aðgerða strax og gera það með þeim hætti að það verði tekið eftir því. Til þess að það verði árangursríkt, það starf sem þarf að fara fram í þeim efnum, þá tel ég mikilvægt að sérfræðingar úr hópi kvenna, hagfræðingar úr hópi kvenna, séu þar við borðið.

Ég fagna því til dæmis, hæstv. forseti, að í fréttum sem bárust í morgun af hinum nýja Landsbanka Íslands hf. skuli kona hafa verið ráðin bankastjóri. Ég tel að það eitt komi til með að hafa einhver áhrif á það að bankanum verði öðruvísi stjórnað héðan í frá heldur en hingað til, sérstaklega þegar horft er til þess að einn af framkvæmdastjórum bankans er líka kona. Ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri konur í röðum þeirra yfirmanna sem búið er að skipa því að ef hinn nýi bankastjóri, Elín Sigfúsdóttir, fær nokkurn fjölda kvenna sér við hlið þá tel ég að þau sjónarmið sem konur hafa haft fram að færa í þessari efnahagsumræðu verði ríkjandi. Það er hætt við að þau verði ekki ríkjandi ef Elín Sigfúsdóttir þarf eingöngu að starfa með karla sér við hlið.

Við höfum heyrt í sérfræðingum upp á síðkastið. Síðast í fyrradag vakti athygli mína viðtal í sjónvarpi við breskan hagfræðiprófessor að nafni Robert Wade sem talaði um að mikið óðagot hefði einkennt viðbrögð íslenskra stjórnvalda við ástandinu síðustu daga. Nákvæmlega sama segir Edda Rós Karlsdóttir í viðtalinu sem ég var að vitna til áðan í Fréttablaðinu. Hún segir, með leyfi forseta:

„Núverandi efnahagsvandi á rót sína í fjármálakerfinu, bæði hér heima og erlendis. Rangar ákvarðanir hafa verið teknar í bönkum, af fyrirtækjum og einstaklingum, en áhrifin bitna á öllum — líka þeim sem hvergi áttu hlut að máli.“

Ég leyfi mér að halda því fram, hæstv. forseti, að mikið af þeim röngu ákvörðunum sem teknar hafa verið hefðu verið með öðrum hætti ef konur hefðu setið við borðið til jafns við karla og á þeirra sjónarmið hefði verið hlustað í ríkara mæli en gert hefur verið. Ég tek hins vegar undir með Eddu Rós Karlsdóttur um að það er ekki tími, staður né stund til að einblína á fortíðina núna. Það skiptir hins vegar mestu máli að við horfum til framtíðar og þá þurfum við líka að skoða hvaða mistök við gerðum. Ein af þeim mistökum sem við gerðum og ein þau stærstu voru að konurnar voru víðs fjarri við ákvarðanatökuna.

Á þessu langaði mig til að vekja sérstaka athygli við umræðu um þetta mál, hæstv. forseti. Að öðru leyti vil ég taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Guðmundi Steingrímssyni, sem sagði að efnahagsumræðan hefði verið allt of dreifð, hún hefði farið fram allt of víða. Hún hefði verið tvístruð frá því að við lögðum niður Þjóðhagsstofnun. Það á rætur að rekja til þess að það var meðvituð ákvörðun þeirra stjórnvalda sem þá voru við lýði, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að setja greiningardeildir bankanna meira í forgrunn, hafa greiningardeild í ASÍ, hafa hagskrifstofu hjá forsætisráðuneyti og hjá fjármálaráðuneyti þannig að þetta var algerlega meðvituð ákvörðun þeirra karla sem þessu réðu og fengu þetta í gegn á sínum tíma að tvístra umræðunni, að drepa henni á dreif. Við sjáum hvaða mistök það voru og hvað það hefur fært okkur. Því þurfum við að breyta. Til þess leggjum við fram þetta frumvarp um nýja Efnahagsstofnun og þjóðhagsráð.

Ef það er rétt sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði að það væri meirihlutavilji fyrir þessu frumvarpi á þingi þá hlakka ég til þeirra tíma sem nú eru fram undan og við getum þá afgreitt frumvarpið vonandi hratt og vel út úr nefnd með yfirlýsingu hæstv. forseta Alþingis um að nú eigi að taka öll þingmannamál til meðferðar í nefndum. Þá skiptir verulegu máli að hafa það í farteskinu að bæði formaður og varaformaður Samfylkingarinnar skuli hafa lýst sjónarmiðum af svipuðu tagi og hér er talað fyrir.

Varðandi síðan menntunarkröfuna sem sett er fram í frumvarpinu, að það skuli þurfa að vera þjóðhagfræði. Það er auðvitað bara eitthvert tæknilegt atriði sem við getum að sjálfsögðu tekið til umræðu og skoðað alla vinkla á. Kannski er það of þröng krafa. Ég get vel tekið undir það. En það er einfalt mál að kippa því í liðinn. Mikilvægast er að hugsun af þessu tagi komist í gegn, verði að lögum á Alþingi Íslendinga sem allra fyrst.