136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[12:06]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður má ekki gera mér upp skoðanir. Auðvitað eru til skynsamir karlar og óskynsamir karlar. Skynsamar konur og óskynsamar konur. Það gefur augaleið. En þegar svo áberandi er að annað kynið vantar algjörlega við borðið í jafnveigamiklum málum og efnahagsmálum hlýtur að vera eðlilegt að sú krafa komi upp að þessi þáttur málsins verði endurskoðaður og tryggt verði að bæði kynin eigi jafnan rétt og komi jafnsterk að borðinu.

Þetta einangraða dæmi um efnahagsmál, hvort sem litið er til Íslands eða alls heimsins, er plagað af því að konur hafa ekki setið við borðið. Karlmenn hafa sett leikreglurnar. Vel kann að vera að hægt sé að segja að umræðan sé fordómafull en ég minnist þess ekki að ég hafi talað um stráka sem hafi leitt okkur afvega. En ég segi karla hafa sett þessar reglur. Þær hafa ekki reynst okkur eða efnahagslífinu nægilega góðar.

Rannsóknir sýna fram á að konur nálgast mál á annan hátt, líka efnahagsmál. Konur horfi frekar til langtímasjónarmiða en karlar og þeir séu áhættusæknari en konur, sem séu varfærnari og vilji hafa allt uppi á borðinu og gagnsætt. Karlar hafi meiri tilhneigingu til að halda hlutunum nálægt sér og hafa ákveðna leynd yfir þeim. Þetta hafa kynjafræðirannsóknir leitt í ljós.

Mér finnast þær niðurstöður sem ég hef lesið og kynnt mér í þeim efnum veigamiklar. Við sem stöndum frammi fyrir þessari krísu, höfum engu að tapa en allt að vinna til að breyta kynjahlutföllum í umræðum og gera konur að gerendum í efnahagsmálum en ekki bara passífum hlustendum.