136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[12:17]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðningsyfirlýsingu við málið. Ég tel mjög mikilvægt að þingflokksformaður Frjálslynda flokksins gefi yfirlýsingu af þessu tagi því að þá tel ég að það séu mikið meiri líkur á því að við náum því í gegnum þingnefnd, sérstaklega eftir að hafa heyrt í hv. þingmanni Samfylkingarinnar áðan sem telur að Samfylkingin muni styðja málið.

Varðandi hins vegar kynjavinkilinn sem hv. þingmaður kom inn á vil ég aðeins staldra við. Nú er það gjarnan þannig að þegar við femínistar tölum fyrir okkar málum er þeim er slegið upp í hálfkæring og það gerði hv. þingmaður með því að fara aftur í söguna og tala um Thatcher, Katrínu miklu og Madame de Pompadour. Ég sagði ekki í ræðu minni að konur væru fremri körlum á öllum sviðum eins og hv. þingmaður sagði að ég hefði sagt. En karlar sem eiga eftir að temja sér hina femínísku hugsun taka gjarnan orðum femínista á þennan hátt, fyrtast við, telja okkur hafa sagt meira en við sögðum og meina annað en við meinum og í þá gryfju féll hv. þingmaður. Ég hvet því hv. þingmann til að koma með okkur í hin femínísku fræði og temja sér þau. Það er kominn tími til að við fjölgum femínistum á Alþingi og hv. þingmaður kann vel að vera góður kandídat í þann flokk.