136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[13:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er, ásamt Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni, flutningsmaður að þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er til umræðu. Varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason minntist á í ræðu sinni hygg ég að við séum öll sammála um að við eigum að sjálfsögðu ekki að ganga nær fiskstofnum en svo að um sjálfbærar veiðar geti verið að ræða. Það er mat okkar að við séum ekki að leggja til að gengið verði lengra en sem því marki nemur þannig að um sjálfbærar veiðar geti verið að ræða, að ekki sé verið að ganga of nærri fiskstofnunum.

Þarna geta verið mismunandi sjónarmið. Það liggur fyrir að Hafrannsóknastofnun hefur verið með ákveðnar hugmyndir hvað þetta varðar. Aðrir líffræðingar og sérfræðingar á þessu sviði hafa hins vegar komið með aðra skoðun. Að sjálfsögðu ber að láta náttúruna njóta vafans en menn verða þó að gæta þess að láta ekki eins konar trúarbrögð gilda umfram eðlilega rökhyggju. (JBjarn: Enda var ég ekki að segja það.) Ég tek það fram að ég er ekki að vega að þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Jón Bjarnason kom með í ræðu sinni. Ég tek undir þau og þetta á ekki við um málflutning hans, síður en svo.

Ég er eingöngu að gera grein fyrir að hvað þetta svið varðar eins og svo mörg önnur vísindasvið verðum við að líta á hlutina út frá heilbrigðri skynsemi. Við þrír þingmenn Frjálslynda flokksins leggjum til að beitt verði heilbrigðri skynsemi til að sjá hvernig á að bregðast við vegna þess mikla aðsteðjandi vanda sem um er að ræða í samfélagi okkar.

Okkur var það ljóst þegar þessi tillaga til þingsályktunar var lögð fram að við mikinn efnahagslegan vanda væri að etja í íslensku samfélagi. Við áttuðum okkur hins vegar ekki á því á þeim tíma að vandinn væri jafngeigvænlegur og hann er. Tillagan á því mun betur við en þegar við settum hana fram. Það er því mun ríkari ástæða til þess að þessi tillaga til þingsályktunar verði samþykkt og að farið verði eftir því sem hér er verið að leggja til.

Ef tillaga okkar yrði samþykkt segir í greinargerð með henni að það mundi auka tekjur og atvinnu í landinu — sem veitir ekki af — og aukning útflutningsverðmæta gæti verið um 40–50 milljarðar. Nú hafa forsendur breyst m.a. vegna breytts gengis íslensku krónunnar þannig að hér erum við að tala um mun hærri upphæð en um getur í greinargerðinni. Sú fjárhæð sem þá var reiknuð út var miðuð við gengið sem var í gildi á þeim tíma.

Það er alveg ljóst að ný atvinnutækifæri og nýsköpun þurfa að verða í íslensku samfélagi og með því að leggja til að um aukningu á þorskafla á þessu fiskveiðiári verði að ræða bendum við á eina leið sem gæti virkað sem hvati og fengið hjól atvinnulífsins til þess að snúast þar sem þau eru á mörgum stöðum að stöðvast. Það er mjög mikilvægt.

Ég vil ekki láta hjá líða að vekja athygli á því, ekki síst vegna þeirra umræðna sem farið hafa fram um verndarstefnu, að því miður hagar svo til að kvótastýrðar fiskveiðar hafa aldrei náð þeim árangri sem að hefur verið stefnt, hvergi í veröldinni. Við höfum nú búið við kvótastýrðar fiskveiðar og takmörkun á hámarksafla um það langa hríð að við getum dæmt nokkuð vel sjálf út frá þeirri reynslu sem við höfum fengið hvað þar er um að ræða. Þá liggur fyrir að þrátt fyrir mjög miklar takmarkanir á veiðum hefur heimild til veiða samt sem áður stöðugt verið að dragast saman. Sífellt minni heildarafli er leyfður en var í upphafi þegar kvótastýrðar fiskveiðar voru teknar upp og munar þar töluvert miklu. Hvernig skyldi standa á því? Sérfræðingar sem komið hafa að málum hafa haldið því fram þann aldarfjórðung sem kerfið hefur verið við lýði að með því að farið yrði að þeirra mati mundi fljótlega verða bjartari tíð með blóm í haga og bættum og meiri fiskveiðum en verið hefur. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.

Á síðastliðnu fiskveiðiári fór sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin algjörlega eftir þeim tillögum sem Hafrannsóknastofnun lagði til. Þorskaflinn í ár hefur ekki aukist. Það er ekkert útlit fyrir það miðað við þau vísindi sem farið er eftir hjá Hafrannsóknastofnun að um það verði að ræða yfir höfuð. Á sama tíma tala þeir sem gerst þekkja til sjómennsku og veiða að ástandið í hafinu og lífkerfinu í kringum landið sé með allt öðrum hætti en haldið er fram af þessum ákveðna hópi vísindamanna.

Ég hef haldið því fram að það væri mjög mikilvægt að við hefðum möguleika á því að leita til annarrar óháðrar vísindastofnunar varðandi mat á því hvernig við skulum haga hámarksafla og ákvörðunum um aflahlutdeild fyrir hvert fiskveiðiár þannig að við værum ekki bara bundin við hóp vísindamanna í einni opinberri stofnun. Ég hefði talið það vera mikilvægt að við hefðum annan slíkan ráðgefandi aðila sem ekki heyrði undir sjávarútvegsráðuneyti eða ríkisstjórn. Þar yrði um að ræða aðila sem væri hlutlaus og enginn þyrfti að efast um að gæfi hlutlægt mat á því hvernig hlutirnir eru. Ég tel að það væri mjög mikilvægt að við kæmum upp slíkri stofnun einmitt til þess að við ættum auðveldara með að gera okkur grein fyrir hvernig vísindamenn og fleiri leggja mat á hvernig farið skuli að.

Það eru ekki algild vísindi í hafrannsóknum og fiskifræði frekar en í hagfræði og mörgum öðrum háskólagreinum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að stjórnmálamenn hafi möguleika á því að fá álit mismunandi aðila eða stofnana þegar þeir leggja mat á hver sé hin eðlilega viðmiðun þegar taka á ákvörðun um mikilvæg mál.

Ég tel að miðað við þær upplýsingar sem óháðir sérfræðingar hafa tjáð mér göngum við ekki það nærri lífkerfinu þó að þorskafli fiskveiðiársins 2008–2009 væri aukinn um 90 þús. tonn þannig að það horfði til ofveiða á þorskstofninum. Við leggjum til til aukningu þjóðarteknanna en stundum áfram sem hingað til sjálfbærar veiðar þannig að við göngum ekki á auðlindir hafsins með óeðlilegum hætti.

Það er hins vegar mikilvægt og við skulum gera okkur grein fyrir því að hér ríkir neyðarástand eins og sakir standa. Við erum að sigla inn í sennilega alvarlegustu kreppu frá stofnun lýðveldisins. Það skiptir máli fyrir stjórnmálamenn að leita allra leiða til þess að þjóðin geti unnið sig sem allra hraðast út úr þeim vandamálum sem augljóslega eru fyrir hendi og eru fram undan. Tillaga okkar þingmanna í Frjálslynda flokknum er viðleitni, ein hugmynd sem miðar að því að þjóðin geti náð að vinna sig sem hraðast og auðveldast út úr þeim vanda sem við er að etja þannig að við búum innan skamms við bættan hag og fulla atvinnu.