136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessu stutta andsvari langar mig að víkja að því sem hv. þm. Þuríður Backman kom að um breytileika í lífríkinu og hvaða áhættu við hugsanlega tækjum.

Ef mig grunaði að við tækjum geysilega áhættu með lífríkið í hafinu með því að auka veiðarnar þá hefði ég sennilega aldrei lagt það til.

Ég veit ekki hvernig á að lýsa því nákvæmlega fyrir hv. þingmönnum hvernig ástandið er en það er kannski hægt að gera það með einfaldri samlíkingu. Á svæðinu frá Víkurál austur og norður um og norður fyrir Hraun 37 mílur norður af Kolbeinsey er þorskur í öllum djúpkantinum. Þetta eru sennilega um 200 sjómílur eða svipað og vegalengdin héðan og til Akureyrar í kílómetrum talið.

Ég stundaði sjó í 35 ár. Ég minnist þess ekki að fullyrt hafi verið við mig eða ég nokkurn tíma orðið þess áskynja að á öllu þessu svæði mætti veiða þorsk bæði djúpt og grunnt. Ég sé enga ástæðu til að efast um þær upplýsingar sem koma frá fiskimönnum (Forseti hringir.) og þeim sem stunda veiðar á grunnslóð (Forseti hringir.) að ástand þorskstofnsins sé í mun betra ásigkomulagi en fiskifræðingar gera ráð fyrir.