136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:19]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar. Við lögðum hana fyrir þingið á síðasta þingi. Margt hefur breyst síðan þá. Meðal annars hefur komið álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi gangi ekki upp og við virðum ekki mannréttindi og nú síðast þessi rosalega bankakrísa. Við reiknuðum ekki með þessu þegar við lögðum þingsályktunartillöguna fram en við í Frjálslynda flokknum höfum oft haldið því fram, bæði í tillögum á síðasta þingi og í kosningabaráttunni fyrir einu og hálfu ári síðan að óhætt væri að veiða miklu meiri þorsk en við gerum.

Þar sem allir stóru bankarnir sem hafa verið með veð í óveiddum fiski í sjónum eru aftur orðnir að ríkisbönkum stöndum við frammi fyrir því að nú gæti verið auðveldara að taka til baka þær veiðiheimildir sem fáum útvöldum hefur verið úthlutað í gegnum tíðina.

Í gærmorgun var fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þar spurði ég hæstv. sjávarútvegsráðherra um skuldastöðu sjávarútvegsins, hversu háar áætlaðar tekjur af honum væru á þessu ári og hver framlegðin yrði. Ég fékk auðvitað engin svör. Það er reyndar erfitt að svara sumu og ég ætlast nú ekki til að fá þetta upp á krónu og aura eða nákvæma prósentutölu. En hægt er að leika sér aðeins, eða ekki að leika sér. Þetta er auðvitað ekki leikur. Við fáumst við alvarlega hluti.

Beinar skuldir sjávarútvegsins eru í kringum 450–500 milljarðar. Með viðbótarskuldum sem tengjast sjávarútvegi með fjárfestingum í fyrirtækjum í öðrum greinum telja sumir að samtals séu beinar og óbeinar skuldir allt að 800 milljarðar. En ég ætla ekki að stilla dæminu þannig upp, heldur tala um að þetta séu 450–500 milljarðar.

Samkvæmt upplýsingum Arnars Sigurmundssonar á fundi fiskvinnslustöðva 26. september voru áætlaðar tekjur íslensks sjávarútvegs á árinu 145 milljarðar. Auðvitað má reikna með því að þær hækki eitthvað með breyttri gengisskráningu og við skulum tala um að þær verði 160 milljarðar þegar upp verður staðið. Framlegð í sjávarútvegi í veiðum og vinnslu er ekki nema 10–20% og ef við reiknum með því að hún sé 20% að þá sýnist mér að í íslenskum sjávarútvegi séu 30–35 milljarðar afgangs til að borga vexti og afborganir af 450–500 milljarða skuld.

Það gefur augaleið að þetta dugar ekki. Ef sjávarútvegurinn væri eitt fyrirtæki væri hann gjaldþrota. En sem betur fer er hann ekki eitt fyrirtæki heldur mörg og standa sum þeirra betur og önnur verr en sjávarútvegurinn í heild.

Íslenskur sjávarútvegur er í gríðarlegum vanda. Íslenskur almenningur hefur tapað stórfé, bæði fjölskyldur og einstaklingar og að auki tapar almenningur í gegnum lífeyrissjóðina og skaði almennings í landinu er verulegur. Það gefur augaleið að bankarnir sem verið er að endurreisa núna þurfa að gera veðköll og kalla eftir meiri og betri veðum en þeir hafa haft. Sumir geta eflaust staðið undir því en aðrir ekki. Það er eins og gengur og gerist.

Veð í bönkum í dag eru að stórum hluta óveiddur fiskur í sjónum. Þegar þorskur var veðsettur fyrir ári síðan var kílóið metið á 4.200 kr. Í síðustu sölu fyrir hálfum mánuði var talað um 2.000–2.400 kr. á kíló. Mat á óveiddum fiski hefur lækkað um allt að helming. Þetta þýðir að veð fyrir skuldum í sjávarútvegi eru nú ekki nema 40–50% af því sem þau voru áður.

Þegar slík staða er komin upp þarf að skoða allt upp á nýtt og kannski þurfum við eða verðum að innkalla allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum og annars staðar til ríkisins og gefa öðrum tækifæri til veiða. Jafnvel bjóða veiðiheimildirnar upp og búa til auðlindasjóð sem hægt væri að nota til að aðstoða og hjálpa til í samfélaginu. Við verðum að hugsa þessi mál upp á nýtt ekki síður en þá uppstokkun sem er á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Sérstaklega á ég þá við bankana sem eru með veð og eru í raun farnir á hausinn allir þrír. Það verður að reikna eignir bankanna að hluta til í óveiddum fiski í sjónum sem ekkert stendur á bak við.

Við leggjum til að bæta við 90.000 tonnum. Í kosningabaráttunni fyrir einu og hálfu ári síðan sagði ég að óhætt væri að veiða 250.000 tonn á ári næstu þrjú árin. Ég stend við það. Enda lögðum við tillöguna fram með mikilli varúð svo við ofbyðum ekki öðrum. Við vissum að fáir þingmenn eru vel inni í þessum málum og skilja kannski ekki hvað er óhætt. Eftir að hafa verið skipstjóri í hátt í 30 ár og fengist við að elta fisk verður maður sjálfkrafa fiskifræðingur. Ég hef áttað mig á eftir að hafa í tíðina átt í samskiptum við starfsmenn Hafrannsóknastofnunar að ég veit meira um hegðun fisks og fiskigengd en margir fiskifræðingar. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki allir vita það sem ég veit.

Í gegnum tíðina hefur mikið verið deilt á Hafrannsóknastofnun vegna þess að nánast öll ráðgjöf hennar byggist á svokölluðu togararalli sem endurspeglar ekki rétta niðurstöðu. Togararallið var útbúið 1984 og enn er togað á sömu slóðum og þá þrátt fyrir að hitastig hafsins og lífríki hafi breyst með hverju ári og þar af leiðandi geti þessi aðferð aldrei verið nothæf. Það er bara þannig. Nýjar upplýsingar hafa komið fram en Hafrannsóknastofnunin samþykkti þær ekki fyrr en á síðasta ári þó að fullorðnir sjómenn, sem hafa lifað og hrærst í sjómennsku allt sitt líf, hafi bent á að margar gerðir af þorski væru í hafinu. Loksins hefur Hafrannsóknastofnunin með DNA-rannsóknum áttað sig á og viðurkennt að margir þorskstofnar eru við Ísland og því þarf að hugsa þetta allt öðruvísi en gert hefur verið.

Hiklaust er hægt að veiða 90–100.000 tonn í viðbót án þess að skaða lífríkið á nokkurn hátt. Við munum ekki bara fá gjaldeyristekjur fyrir þorsk heldur verður auðveldara að veiða ýsu, ufsa, karfa, grálúðu og steinbít en allar þessar tegundir brunnu að hluta til inni á síðasta fiskveiðiári og náðist ekki að veiða þær af því að þorsk vantaði sem meðafla.