136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:42]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er ekki mjög heilbrigt hvernig viðskipti með kvóta á Íslandi hafa verið á undanförnum árum. Spákaupmennska þar hefur verið mikil og verð ...(GMJ: Þetta er aflamarkskerfið Bjarni.) Frú forseti. Eins og ég sé þetta þá er þetta hluti af því óheilbrigða viðskiptakerfi sem hér hefur skapast í mikilli spákaupmennsku. Menn hafa verðlagt kvóta bæði í sjávarútvegi og landbúnaði af þeim sökum langt upp fyrir allt sem raunhæft er rétt eins og menn hafa verðlagt mjög margt annað í því fárviðri sem hefur í rauninni geisað í mörg ár á fjármálamörkuðum og við höfum tekið þátt í af allt of miklum æsingi og látum og sér nú að nokkru fyrir endann á að vísu með erfiðleikum sem eru miklu meiri en við hefðum viljað lenda í og okkur óraði nokkurn tíma fyrir. En þar með held ég ekki að menn geti fullyrt að ekki hefði átt að leyfa mönnum — úr því að kvótakerfið var komið þá var það ákveðin frelsisskerðing og ákveðin hefting að menn gætu ekki ráðstafað þessum rétti sínum og réttur er með vissum hætti eign. Það er aftur á móti mjög mikilvægt í þessu sambandi og fyrir því höfum við talað við framsóknarmenn — ég get alveg viðurkennt að um þetta eru skiptar skoðanir innan Framsóknarflokksins og ég vil að það komi hér fram að ég tala fyrir minni skoðun — en við framsóknarmenn höfum aftur á móti staðið mjög fast saman í því að við viljum og munum leggja fram aftur á þessum vetri eins og þeim síðasta frumvarp um að sett verði í stjórnarskrá að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar. Það er mjög mikilvægt skref til að tryggja að kvótinn hegði sér ekki sem eign útgerðarinnar. Það má hann aldrei vera. Við erum að tala um rétt til veiða og ég tel að í (Forseti hringir.) heilbrigðu viðskiptaumhverfi verði það ekki verðlagt upp úr öllu valdi líkt og gert hefur verið á síðustu árum.