136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:45]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða um þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að leyfilegur þorskafli á fiskveiðiárinu 2008–2009 verði aukinn um 90 þús. tonn. Það er ekki nema von að menn komi með slíka tillögu. Í fyrsta lagi eru mjög margir ósammála þeirri skoðun Hafrannsóknastofnunar að ekki sé þorandi að veiða meira og mjög margir sjómenn sem fara á miðin hvenær sem þeir geta segja að mikill sé fiskur í sjónum og það sé vandamál að ekki megi veiða meiri þorsk. Það er mjög eðlilegt að þessi hugmynd komi fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir, ekki veitir af að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Ég tel að brýnt sé að taka þessa tillögu til mjög alvarlegrar íhugunar með jákvæðu hugarfari og hugsa vel hvort ekki sé rétt að auka þorskveiðiheimildirnar, það er skoðun mín.

Ef heimild verður gefin til að veiða umframafla miðað við það sem nú er tel ég að ríkið eigi að setja það á markað og allir sem eru í þessu kerfi núna þekkja markaðinn, uppboðin, samkeppnina og allt sem í kringum það er. Það mundi leiða til þess að meira jafnvægi kæmist á þar. Þá gætu menn sem eiga báta, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, kvótalausir eða með kvóta, geta allir boðið í á jafnréttisgrundvelli. Ég legg áherslu á það.

Um leið mundi það skapa aukna möguleika til atvinnu. Það er töluverður hópur fólks í landinu sem kann að veiða fisk hvort sem það er á smáum eða stórum bátum, snurvoðarbátum, skakbátum, línubátum, togbátum o.s.frv., og um leið og meiri afli kæmi eru möguleikar á meiri vinnu, meiri tekjum. Það mundi skapa bjartsýni, von og jákvæðni og það er það sem við þurfum. Við búum svo vel blessunarlega í öllu þessu harðæri, því ástandi sem núna blasir við okkur, og erum við þó það vel sett að við getum aflað okkur fæðu og viðurværis í þeirri náttúru.

Hins vegar langar mig til að bæta því við í þessum tengslum við það mál sem við ræðum hér þegar gefnar voru út tölur um hámarksafla en hæstv. sjávarútvegsráðherra þá að auka yrði rannsóknirnar. Talað var um að fleiri aðilar kæmu að rannsóknum á því hversu mikill fiskur væri í sjónum, að við yrðum að reyna að afla meiri þekkingar. Auðvitað er það mjög misvísandi þegar mikill fjöldi sjómanna talar um að mikill sé fiskur í sjónum og fræðimenn eða þeir sem vinna hjá Hafrannsóknastofnun segja allt annað. Þá spyr ég: Er þá ekkert bil þar á milli eða er það bara annaðhvort eða? Hafa sjómennirnir algjörlega rangt fyrir sér eða er það bara Hafró sem hefur rétt fyrir sér? Er allt sem þeir segja algjörlega rétt? Að því getum við ekki komist nema við aukum rannsóknir, samstarf og þátttöku sjómanna í rannsóknunum.

Þá vil ég líka geta þess að hafsvæði okkar liggur að hafsvæðum annarra landa eins og t.d. Noregs, Færeyja og Grænlands. Auðvitað þurfa þær þjóðir að spýta í lófana og leggja áherslu á sameiginlegar rannsóknir og aukið samstarf á þessu sviði.

Ef við setjum auknar aflaheimildir á markað þannig að allir fái að taka þátt í keppninni er í raun og veru um að ræða frjálsa samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Það er eðlilegt í frjálsu hagkerfi í stað þess að um úthlutanir sé að ræða. Svo leigja þeir sem fá úthlutanir hinum. Ef einhver ætlar að fá að veiða eitt kíló af þorski þarf hann að greiða fyrir það um 300 krónur, eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði áðan. Það eru orðin dálítið dýr veiðileyfi.

Ég ætla ekki að tjá mig frekar um þetta en ég er á þeirri skoðun að skoða eigi þessa tillögu, taka hana mjög alvarlega og ræða hana af fullri alvöru hér í þinginu.