136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:57]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna orða hv. þm. Grétars Mars Jónssonar hér áðan vona ég að hann hafi áttað sig á því að stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum er sú að öll þjóðin eigi miðin, þau séu sameign þjóðarinnar og að deila eigi út heimildunum á jafnræðisgrundvelli. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Þetta er náttúrlega mikið auðlindamál og kemur inn í alla auðlindaumræðu sem verið hefur, um vatnið, orkuna og önnur auðæfi jarðarinnar eða landsins. Um er að ræða sameign þjóðarinnar sem við eigum að reyna að nýta saman og gera það þannig að allir hafi af því hag, ekki bara einhverjir örfáir einstaklingar. Það er það sem ég vildi benda hv. þingmanni á. Ég gleðst yfir því að hann telur að þeir sem aðhyllist það sem við köllum jafnræði í útdeilingu og réttlæti sé að sjá ljósið. Ég er náttúrlega glaður yfir því.