136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:59]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Í stjórnarsáttmála milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru engin ákvæði um að gera neinar breytingar. Það á að skipa nefnd til að skoða áhrif núverandi fiskveiðistjórnarkerfis á hinar dreifðu sjávarbyggðir landsins. Það er ekkert sem segir það og engin breyting er í augsýn.

Það er furðulegt af stjórnmálaflokki eins og Samfylkingunni sem á helming ráðherra í ríkisstjórninni að hann skyldi ekki a.m.k. ná helmingi af því sem hann lofaði fólki í kosningabaráttunni en sveik daginn eftir kosningar. Samfylkingarmenn hafa ekki sýnt burði til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu með neinum hætti. Maður fagnar því að einn þingmaður skuli þó koma og lýsa því yfir að sennilega þurfi að gera breytingu.

Menn verða að átta sig á að þó að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar en nýtingarrétturinn afhentur fáum útvöldum þýðir það að hægt er að braska með veiðiheimildirnar eins og gert hefur verið síðustu 18 ár. Hægt er að leigja, selja og veðsetja. Þó að veðið sé ekki upp á marga fiska í dag er hægt að leigja og selja veiðiheimildir.