136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[15:18]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir svarið og tek undir þau orð að það liggur í augum uppi að þeir fiskimenn sem róa á ákveðnum svæðum í kringum landið eða nærri sinni byggð — Snæfellingar í Breiðafirði og í kringum Jökul og Vestfirðingar á miðunum fyrir vestan — þekkja auðvitað botninn og vita hvenær fiskurinn gengur upp, hvernig hann hagar sér eftir árstíðum og hvernig hann hefur hagað sér undanfarin ár. Þess vegna finnst mér þetta vera mjög gott innlegg í umræðuna hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni.