136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er mér að vísu ekki kunnugt um hvort í vegalögum eða vegáætlun sé sérstök skilgreining á ferðamannavegi þó að ég hafi tekið þannig til orða en ég held að allir sem það vilja skilji hvað felst í því og hvaða munur er á því að tala um ferðamannaveg, sem fyrst og fremst þjónar umferð þegar meginstarfsemi ferðaþjónustu fer fram. Það er munur á því eða byggja upp veg sem á að þjóna öllum þeim miklu þungaflutningum sem óhjákvæmilega færu yfir heilsársveg árið um kring.

Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að á Íslandi er allra veðra von að vetrarlagi og því þarf að gera býsna miklar ráðstafanir til að vegur yfir miðhálendið geti þjónað hlutverki sínu allt árið um kring og þeim miklu þungaflutningum sem eru á íslenskum vegum í dag. Það lýtur að breidd vega, undirlagi, burðargetu o.s.frv. Það er auðvitað allt annað en vegur, sem þarf ekkert endilega að vera malbikaður eða mikið uppbyggður til að geta verið þokkalega góður ferðamannavegur á ferðamannatímanum þegar fólk leggur leið sína á miðhálendið. Við vitum alveg og þekkjum að hálendisvegirnir eru yfirleitt ekki opnaðir fyrr en komið er fram í júní vegna vetrarveðurs og það er ástand sem við búum við hér á landi og eigum frekar að sætta okkur við og einbeita okkur að uppbyggingu vegakerfisins hringinn í kringum landið.