136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:41]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið og mér þykir athyglisvert að hv. þingmaður og þá væntanlega flokkur hans einnig — því hann vék í fyrri ræðu sinni að afstöðu flokks síns í þessum efnum — hafi þá sýn að góður ferðamannavegur geti bæði verið malarvegur og niðurgrafinn. Ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum og hygg að þeir sem reka ferðaþjónustu í landinu séu það ekki heldur. Þar með er ég ekki að segja að ekki verði alltaf til vegir eða vegslóðar á hálendinu sem verði einungis færir jeppum og öðrum slíkum farartækjum og harla holóttir en góðar almennar ferðamannaleiðir eru svolítið annað.

Ég held reyndar að hér gæti nokkurs misskilnings þegar talað er um þungaflutninga vegna þess að með mikilvægari þungaflutningum á vegum landsins eru flutningar með ferðamenn. Langferðabílar sem notaðir eru við hópferðir eru mjög þungir og þeir stærstu jafnast í rauninni á við flutningabíla og þá bíla er ekkert hægt að nota. Ekki er hægt að skapa eðlilega umferð ferðamanna á langferðabílum yfir Kjöl eða Sprengisand nema vegir þar verði nokkuð bættir.

Það gætir líka töluverðs misskilnings í máli hv. þingmanns um að hálendisvegir séu ekki opnaðir fyrr en í júní vegna veðurs. Svo er ekki. Hálendisvegir eru ekki opnaðir fyrr en í júní vegna aurbleytu sem er vegna þess að engin undirbygging er í vegunum. Við erum að tala um það hvort við megum búa til veg yfir hálendið sem mun þola frostsprungur og það sem gengur á þegar land frýs og þiðnar til skiptis. Það er þannig vegur sem við viljum leggja yfir Kjöl en ég er alveg sammála því (Forseti hringir.) að varúðar þarf að gæta þegar kemur að umhverfinu.