136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta fara að verða hártoganir um það hvort vegurinn er sentímetrunum breiðari eða mjórri eða hærri eða ekki í landinu. Ég ætla ekki að fara mikið út í það heldur hitt, sem þingmaðurinn gat sérstaklega um í andsvari sínu, mismunandi sýn á hvaða hlutverki vegurinn á að þjóna. Eins og hér hefur komið fram og ég las úr tillögunni — og ég get ekki skilið hana öðruvísi og fæ það staðfest hér í andsvari hv. þm. Bjarna Harðarsonar, sem er einn af flutningsmönnum hennar — er hugsun þeirra að búa til veg yfir Kjöl sem á að geta tekið alla flutninga og umferð árið um kring. Til að svo geti orðið í landi okkar þarf talsvert mikið til, ég tala nú ekki um á harðbýlu hálendinu og þýðir ekki að bera á móti því að til að það geti orðið þurfi talsvert til.

Við erum sannfærð um að þetta sé ekki rétta leiðin og að því lúta þær röksemdir sem ég hef fært hér, annars vegar að umhverfinu og hins vegar að forgangsröðun í samgöngumálum og byggðamálum. Um þetta eru bersýnilega skiptar skoðanir og það er ekkert óeðlilegt að menn skiptist á skoðunum um mál af þessum toga og ræði það þá frekar þegar málið kemur til umfjöllunar í samgöngunefnd og kalli eftir gögnum og vinni úr þeim. Ekki ætla ég að vera andvígur því að við vinnum málið, því þar sem mælt er með því hér fer það bersýnilega til nefndar þannig að ég ætla ekki að leggjast gegn því. En það er augljóst að skoðanir eru skiptar um það hvers konar veg eða samgöngur við teljum henta yfir hálendið.