136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Kjartan Ólafsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í samgönguáætlunum eru ferðamannavegir tilgreindir en ég man ekki eftir því að tilgreint sé hvernig þeir líta út. Þess vegna reyndi ég að spyrja hv. þingmann að því hvernig honum finnst ferðamannavegir eiga að vera, hvort það séu vegir sem eru uppbyggðir, eins og hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi, sem ekki er aur á fram á mitt sumar. Það sem mér finnst að við þurfum að átta okkur á þegar við tölum um ferðamannavegi er hvað við eigum í rauninni við og þá er ég ekki að tala um neina verkfræðihönnun.

Mér finnst að þingmaðurinn geti samþykkt að sú skoðun fari fram. Hins vegar er þingmaðurinn ekki endilega sammála því sem kemur fram í greinargerðinni og það er gott og vel. Mig langar þá í lokin að spyrja hv. þingmann: Kæmi til greina að gera uppbyggðan veg yfir Kjöl? Þá á ég við veg sem er frostfrír og með slitlagi. Það yrði takmarkað hvaða flutningar mættu vera um þann veg. Ef þungaflutningarnir færu fram á þjóðvegi 1 og fólksbílaumferðin og ferðamannatraffíkin yfir sumartímann yrðu meiri, léttum við um leið sannarlega á umferð á þjóðvegi 1 og það yrði einnig til þess að minnka slysahættu og auka umferðaröryggi.