136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

yfirlýsingar forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

[15:08]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar við síðari spurningu minni og bendi á að það liggur í augum uppi að aðild að Evrópusambandinu er málefni sem mikilsvert er að ræða og á því eru tvær hliðar: Það eru kostir og það eru gallar. En við vitum að í þeirri stöðu sem við höfum verið nú hefði aðild að Evrópusambandinu engu breytt. Evrópski seðlabankinn tryggir ekki bankana við þær aðstæður sem uppi eru og ríkisstjórnir allra Evrópusambandsríkjanna verja sjálfar, af eigin rammleik, bankakerfi sitt.

Í öðru lagi hefði aðild að Evrópusambandinu ekki tryggt okkur evruna því að eins og hv. þingmenn vita þarf viðkomandi ríki að uppfylla kröfur til að geta tekið upp gjaldmiðilinn. Að tefla því máli fram inn í þann vanda sem við er að glíma finnst mér ekki vera málefnalegt framlag, virðulegi forseti.