136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

umhverfismat vegna framkvæmda við álver á Bakka.

[15:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það ríða mikil áföll yfir samfélag okkar og mikilvægt er þegar við horfum til framtíðar að það sé alveg klárt hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið. Íslenska efnahagsundrið hefur beðið mikinn hnekki og ljóst er að það mun ekki skila okkur því í náinni framtíð sem við gerðum okkur væntingar um.

Við höfum hér undirstöðuatvinnugreinar, fiskveiðar, fiskvinnslu og stóriðju, sem skila okkur þeim útflutningsverðmætum sem við munum byggja nýtt samfélag á. Það er sá lærdómur sem við drögum, virðulegi forseti, af því sem við höfum gengið í gegnum undanfarið. Við förum aftur til fortíðar að því leyti að við erum minnt á hvað það er sem við höfum og hvað það er sem við munum byggja á, hvað það er sem í raun gerði þá útrás, sem hefur leikið okkur svo grátt, mögulega á sínum tíma. Það voru bankarnir sem byggst höfðu upp á íslenskum sjávarútvegi, á þeirri stóriðju sem hér var stunduð.

Nú er mikilvægt að skilaboðin verði skýr héðan frá Alþingi og því vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra varðandi þau málefni sem hjá henni liggja til að greiða sem mest fyrir því að við getum hafist handa. Ég vil spyrja hana sérstaklega um ákvörðun hennar um heildstætt mat um álver á Bakka, hvort ekki komi til greina í ljósi þeirrar óvissu sem skapast þann tíma sem ferlið dregst vegna matsins að draga þessa ákvörðun til baka og setja eðlilegt skipulagsferli í gang (Forseti hringir.) miðað við þær reglur sem gilda.