136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

umhverfismat vegna framkvæmda við álver á Bakka.

[15:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvar hæstv. ráðherra hefur verið í þessari umræðu þegar hún segir að það sé allt í lagi á Bakka, hjá því fólki fyrir norðan sem hefur gert athugasemdir við ákvörðunina sem hún tók. Það sé allt í lagi hjá því fólki sem ætlar að standa þar að framkvæmdum og hefur gert alvarlegar athugasemdir við ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra, að ferlið geti seinkað framkvæmdum um allt að 15 mánuði. Svo er sagt að það muni ekki seinka neinu og að allt sé í góðu lagi á Bakka.

Virðulegi forseti. Við verðum að senda skýr skilaboð frá Alþingi núna. Við verðum að senda skýr skilaboð um á hverju við ætlum að byggja samfélagið í framtíðinni. Það þýðir ekkert að segja við þjóðina að það sé allt í lagi að tefja framkvæmdir. Það er orðið tímabært að við hættum að flækjast fyrir á þinginu með því að setja einhverjar reglur sem eru til þess fallnar að tefja ferlið. Við höfum ekkert efni á því í dag. Það er það sem við ætlum að byggja á í framtíðinni og við þurfum að fá hlutina í gang (Forseti hringir.) hið fyrsta.