136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

lög um vörugjald og virðisaukaskatt.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þessa fyrirspurn og ég tel að hún hafi bent hér á raunverulegt vandamál sem full ástæða er til að reyna að leysa. Þegar efnahagsaðstæður breytast jafnskjótt og nú hefur orðið er ljóst að ýmsar ákvarðanir sem teknar hafa verið, t.d. um innflutning á bifreiðum, hafa ekki reynst raunhæfar miðað við nýtt ástand.

Í lögum er gömul heimild, sem ég beitti mér fyrir sem fjármálaráðherra, fyrir því að flytja notaða hópferðabíla úr landi með tiltekinni endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þar er fordæmi sem hægt er að byggja á og ég tel að við eigum að greiða fyrir því að hægt verði að flytja aftur úr landi bíla, ökutæki, sem í ljós hefur komið að ekki er þörf fyrir í landinu og gera það þá með skattalegum ráðstöfunum í átt við það sem hv. þingmaður benti hér á.

En auðvitað þarf að fara vel yfir þetta í fjármálaráðuneytinu og finna réttu leiðirnar til þess að ekki komi upp mismunun gagnvart öðrum sem hagsmuna eiga að gæta á þessu sviði.