136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

fjármálafyrirtæki.

14. mál
[15:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu enda var það ætlunin af okkar hálfu að koma þessu máli beint til nefndar. Það á þangað mikið erindi og verður vonandi skoðað á næstu vikum og mánuðum eins og svo margt sem þarf að skoða þegar við hefjumst handa um að endurreisa íslenskt fjármála- og atvinnulíf úr þeim rústum sem nýfrjálshyggjueinkavæðingarstefnan hefur leitt yfir það.

Ég verð að segja að mér finnst hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nokkuð kjörkuð að koma hingað upp til hinna hefðbundnu varna fyrir fyrirkomulagið sem leikur íslenska skattgreiðendur og almenning vítt um heim jafngrátt og raun ber vitni. Enginn vafi er á því í mínum huga að eitt mesta glóruleysið í þessu undanfarin ár, ekki bara hér heldur víðar þar sem hið evrópska regluverk hefur verið keyrt yfir menn í anda þess trúboðs að fjármagninu á markaðnum skuli allt leyfilegt — allan almenning í þessum löndum, sem er að taka á sig gríðarlegar byrðar til að afstýra endanlegu og fullkomnu hruni í formi mikillar fyrirgreiðslu úr seðlabönkum og opinberum sjóðum, hefði mátt firra miklum hörmungum ef menn hefðu ekki leyft þessu að þróast jafneftirlitslaust og stjórnlaust og án nokkurs regluverks og raun ber vitni.

Ég var allan tímann mjög andvígur því að íslensk bankalög eða lög um fjármálastofnanir væru túlkuð á þann veg sem gert er, og ég tek fram túlkuð, að bönkunum væri innan ramma laganna heimilt það mikla svigrúm sem þeir hafa tekið sér til að blanda saman hefðbundinni viðskiptabankaþjónustu á grundvelli slíks starfsleyfis og áhættufjárfestingum, kaupum og sölu á fyrirtækjum og öðru slíku. Það er eftir því sem ég fæ best séð, og með lögfræðingum sem ég hef ráðfært mig við, fyrst og fremst byggt á því að íslenskir bankar, að því er virðist með stuðningi eftirlitsaðila, hafa fengið að túlka lögin mjög rúmt. Til þess að það sé svo sagt, þannig að hv. þingmaður verði að fara heim með athugasemdir sínar um að á einhvern hátt sé um ómálefnalegan málflutning að ræða, þá skoðuðum við þetta vel þegar við undirbjuggum frumvarpið á sínum tíma, við skoðuðum bæði íslensku bankalöggjöfina og þær evrópsku reglur sem um þetta fjölluðu. Það var mat margra manna, vissulega ekki óumdeilt, að Ísland hefði til þess fulla stöðu að skilyrða útgáfu starfsleyfa eftir flokkum þannig að það jafngilti í raun og veru aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Það er þannig að þessi starfsemi er byggð á starfsleyfum frá hinu opinbera. Þau eru skilgreind og þau eru aðskilin eins og ég veit að hv. þingmaður, og fyrrverandi hæstv. ráðherra bankamála, hlýtur að vita að um sjálfstæð og aðskilin starfsleyfi er að ræða.

Ef við hverfum 10 ár aftur í tímann getum við rétt ímyndað okkur hversu miklu minni áhættu íslenskir skattgreiðendur bæru í dag ef sú þróun hefði ekki hafist hér, með einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og síðar bankanna, að grauta þessu öllu saman í eina púlíu og leyfa þessum geira síðan að þenjast út á erlendri grund á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, sem er veruleiki. Og ég ætla vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi í okkar þjóðarbúskap ekki að ræða um þetta meira að svo stöddu. Við tökum hér væntanlega yfirvegaða og málefnalega umræðu um hremmingarnar sem íslenskt samfélag er að ganga í gegnum á morgun eða hinn daginn og þá komum við kannski betur inn á þessi mál.

Ég held að þeir sem hafa ráðið fyrir bankamálum á Íslandi að einhverju leyti undanfarin 10–15 ár hljóti að þurfa að velta því fyrir sér hvar þeir stóðu vaktina þegar þessar óheyrilegu skuldbindingar riðust íslenskum almenningi sem nú eru að hrynja í hausinn á okkur. Ég held að einhver þurfi að spyrja sjálfan sig: Hvar var ég? Þetta var sem sagt skoðað á sínum tíma. Mér er vel ljóst að þetta er ekki óumdeilt en við höfðum fyrir því gild rök og mat margra sérfróðra aðila að sú leið væri fær sem við lögðum þarna til. Á það hefði þá reynt og hið evrópska regluverk hefði gengist undir það próf að gera athugasemdir við íslenska löggjöf og kvarta undan henni. Við hefðum farið í það ferli og það hefði ekki verið neinn heimsendir þó að Íslendingar hefðu reynt að setja sér sjálfstæða löggjöf sjálfum sér til varnar og almannahagsmunum, og síðan hefði verið tekist á um það hvort hún óbreytt eða í einhverju formi gat staðist hið evrópska regluverk.

Við vorum ekki ein þeirrar skoðunar á sínum tíma þegar við settum þetta mál fram að þetta væri áhugaverð leið. Það voru ekki minni aðilar en Morgunblaðið sjálft sem tók undir það að um mjög áhugaverðan kost væri að ræða sem og tillögur okkar (Gripið fram í.) um að yrði sú leið farin að setja banka á markað yrði það bundið í löggjöf að um dreift eignarhald yrði að ræða. Ætli það hefði ekki líka komið sér betur núna að bankarnir hefðu ekki verið í höndum örfárra stórra fjárfesta sem gengu þar út og inn og skömmtuðu sjálfum sér lán til gríðarlegra fjárfestinga í útlöndum ekki síst sem nú eru að hrynja í hausinn á okkur.

Þessum athugasemdum vildi ég koma á framfæri, virðulegi forseti, en ætla ekki að lengja umræðuna og legg til að málið farið sem fyrst til nefndar. Ég treysti hv. þingnefnd til að skoða það ásamt með mörgu fleiru sem þær nefndir Alþingis sem fjalla um viðskipti, löggjöf og fjármál hljóta að þurfa að fá á sína könnu á næstunni.