136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:40]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Þannig háttar til að þetta mál var rætt á fimmtudaginn í síðustu viku og umræðu frestað og ég var þá næst á mælendaskrá. Ég sé að flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Kjartan Ólafsson, er ekki viðstaddur þessa umræðu en ég tel þó engu að síður rétt að gera grein fyrir afstöðu minni. Þetta mál hefur svo sem verið rætt hér áður, var rætt og flutt á síðasta þingi. Ég vildi hnykkja á þeirri afstöðu minni, sem ég viðraði reyndar í þeim umræðum, að ég er heldur neikvæð gagnvart þessari tillögu. Vil ég færa fram nokkur sjónarmið til stuðnings þeirri afstöðu.

Í fyrsta lagi er það náttúruverndarsjónarmið. Samgöngunefnd hefur sent málið til umsagnaraðila og fengið einar 12, hygg ég, umsagnir um það. Meiri hluti umsagnaraðila er frekar neikvæður í garð þessarar tillögu. Mjög margir nefna náttúruverndarsjónarmiðin út frá þessu og ég get að mörgu leyti tekið undir það.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna — áður en ég geri það er rétt að koma inn á það að þetta tengist vinnu hæstv. umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytisins varðandi landsskipulag. Það mál er ekki klárað og afgreitt frá þinginu og snýr að landnotkun á hálendinu. Mér finnst ekki ganga að þetta mál sé sett í einhvern forgang meðan landsskipulagið er óklárt. Í þingsályktunartillögu hv. þingmanna sem flytja hana er talað um að Alþingi feli ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja heilsársveg yfir Kjöl og jafnframt verði gerð forkönnun á umhverfisáhrifum eins og segir í tillögunni. Það er þannig, frú forseti, að það er ekkert til sem heitir forkönnun á umhverfisáhrifum. Annaðhvort fara menn í könnun á umhverfisáhrifum eða ekki. Það er ekkert til í lögunum sem heitir forkönnun svo að því sé til skila haldið.

Það er líka rétt að geta þess að bæði hæstv. samgönguráðherra og hæstv. umhverfisráðherra hafa tjáð skoðun sína og gerðu það síðasta sumar. Þau telja hvorugt rétt að leggja sérstakan heilsársveg yfir Kjöl að svo stöddu og færa fyrir því þau rök að um spurningu um forgangsröðun í samgöngumálum sé að ræða. Ég get tekið undir það og tel að önnur mál séu brýnni í samgöngumálum en heilsársvegur yfir Kjöl.

Þetta eru þau tvö atriði sem ég hef fram að færa, frú forseti. Móta þarf samræmda landnotkunarstefnu á hálendinu og þar með hvernig vegagerð verði háttað. Ég tel að heilsársvegur yfir Kjöl sé ekki í forgangi og í öðru lagi tel ég að menn verði að skoða umhverfisáhrifin vandlega og ekki rasa um ráð fram.

Ég vildi koma þessu á framfæri, frú forseti. Ekki gafst tækifæri til þess í umræðunum á fimmtudaginn. Þetta hefði kannski verið markvissari umræða ef hv. flutningsmaður tillögunnar hefði verið hér en hann þekkir mín sjónarmið, ég hef viðrað þau áður, og þau hafa ekki breyst á milli mánaða.