136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

rannsóknarnefnd til að gera úttekt á fiskveiðiheimildum.

21. mál
[16:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sem er annar flutningsmanna frumvarpsins, telur að ákveðins misskilnings gæti hjá mér varðandi það um hvað frumvarpið snýst. Hann fullyrðir að það snúist ekki um þætti eins og landhelgisbrot en þó er í frumvarpinu fjallað um þau lög og reglur sem menn liggja undir grun um að hafa verið að brjóta. Þar segir; með leyfi forseti:

„Mætti í því sambandi nefna lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lög um umgengni um nytjastofna og lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.“

Hvaða lög eru það? Þessi lög hljóta að snerta veiðar í landhelginni. Þá falla þar undir lög um landhelgisbrot, veiðar á svæðum sem ekki má veiða á. Það þarf ekki endilega að vera innan 12 mílna. Það getur verið á lokuðum svæðum eða þar sem veiðar eru takmarkaðar með möskvastærðum eða með einhverjum öðrum hætti.

Ég þekki vel umræðuna um gulu hættuna, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, og ég þekki vel umræðuna um brottkast. Umræður um nefnd kvótakerfi hafa oft snúist um að menn séu að henda miklu af fiski í sjóinn en ég fullyrði að á undanförnum árum hefur minna verið hent af fiski í hafið en nokkurn tíma hefur verið gert. Það er alltaf þannig að umræðan fer af stað um mikið brottkast, gífurlegt brottkast, en við sem höfum verið lengi á sjó og löngu fyrir daga kvótakerfisins vitum af samanburði hvernig það er.

Andi frumvarpsins kom kannski best fram í lokaorðum hv. þm. Grétars Mars Jónssonar þar sem hann segist fagna því ef einhverjir sjómenn hafa ekki tekið þátt í brottkasti. Ég fullyrði að ekki hafa allir sjómenn gert það.