136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

rannsóknarnefnd til að gera úttekt á fiskveiðiheimildum.

21. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Verið er að fjalla um og upplýsa hvernig fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið, ekki með tilliti til landhelgisbrota eða ólöglegs útbúnaðar á skipum, veiðarfærum eða annað. Mest er verið að tala um þetta til að upplýsa hvað við drepum mörg tonn af fiski. Það er ágætt að einhverjir togaramenn kannist við að fiski hafi verið kastað í sjóinn. En þetta hefur verið mikið í umræðunni og það þarf ekki mig til að nefna það. Blaðagreinar hafa verið skrifaðar um þetta og margir hafa komið fram og sagt sína sögu af þessu. Það er það sem verið er að gera. Ekki er verið að leita að einhverjum sökudólgum heldur er verið að reyna að upplýsa hvernig fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi hefur virkað, hvað menn hafa verið að henda miklu af fiski í sjóinn, hvað menn hafa verið að landa fram hjá af fiski og annað í þeim dúr. Enn og aftur tek ég það fram að ekki er verið að reyna að draga menn fyrir dómstóla og láta dæma þá. Það er verið að nálgast þetta með þeim hætti að fá sannleikann upp, eða því sem næst, um stöðuna.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að eftirlitið til sjós er gríðarlegt. En menn henda ekki fiski í sjóinn þegar fulltrúar frá Fiskistofu eru um borð í skipinu og horfa á þá eða þegar Landhelgisgæslan kemur um borð í skip, í þau fáu skipti sem hún gerir það. Þeir sem þekkja til og hafa tekið þátt í þessu vita um hvað málið snýst og verið er að opna leið fyrir þá svo að þeir geti sagt frá.

Fiskistofa fékk á síðustu fjárlögum 840 millj. kr. en fíkniefnalögreglan fékk ekki nema rúmar 320 millj. kr. — það sést hvar hættulegustu mennirnir eru.