136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:34]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að ræða löggjöf um fjármálafyrirtæki og beini máli mínu til formanns hv. viðskiptanefndar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar.

Það er þrennt sem mér finnst ástæða til að taka fyrir varðandi það mál. Í fyrsta lagi: Hvernig reynast lögin í því umróti sem gengið hefur yfir síðustu daga? Eru ágallar á lögunum þess eðlis að hagsmuna þjóðarinnar er ekki gætt? Eru það ágallar á lögunum sem leiddu til þeirrar stöðu að íslenska þjóðin ber nú orðið ábyrgð á 600 milljarða kr. sparnaði sparifjáreigenda víða um lönd í Evrópu? Var til þess ætlast þegar löggjöfin var sett að sú staða gæti komið upp? Við vonum öll að þær eignir sem standa bak við starfsemi bankans dugi til að borga skuldbindingarnar en við vitum það ekki.

Í öðru lagi: Hver fylgist með ríkisstjórninni og Fjármálaeftirlitinu? Fjármálaeftirlitið á samkvæmt lögunum að annast eftirlit með þeim fjármálastofnunum sem hafa starfrækt útibú erlendis. Vinnur Fjármálaeftirlitið verk sitt eins og því ber lögum samkvæmt? Hvers vegna var ekki gripið í taumana fyrr? Hvers vegna kom þessi staða upp?

Í þriðja lagi: Hver fylgist með ríkisstjórninni? Hver fylgist með embættismönnum ríkisstjórnarinnar sem eru að gera samninga við hollensku ríkisstjórnina? Hvers konar samningar eru þar á ferðinni?

Virðulegi forseti. Alþingi verður að láta málið til sín taka. Hv. viðskiptanefnd ber hitann og þungann af því eftirlitshlutverki sem Alþingi á að hafa með ríkisstjórn landsins á hverjum tíma.