136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:39]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir svör við fyrirspurnum mínum. Ég vil árétta það, beina þeim tilmælum til nefndarinnar, að hún taki þessa löggjöf til athugunar nú þegar og láti hendur standa fram úr ermum, skoði ákvæði hennar út frá því sem gerst hefur og beri saman hvort þörf er á að gera breytingar á löggjöfinni eða ekki.

Löggjöfin er byggð á EES-tilskipun, það er rétt. En í þeim tilskipunum er að finna almennar reglur, grundvallarreglur. Hins vegar er mikið svigrúm fyrir hvert og eitt einstakt ríki til þess að fylla út í leikreglurnar innan þeirra almennu reglna sem settar eru í tilskipunina. Ég held t.d. að vel sé hægt að slá frekari varnagla í lögin án þess að ganga á grundvallaratriði EES-tilskipananna. Ég held t.d. að það sé algerlega nauðsynlegt að setja reglur um starfsemi útibúa íslenskra banka erlendis til þess að takmarka ábyrgð íslenska ríkisins. Það skilja allir og sjá allir sanngjarnir menn að ekki er eðlilegt að lítil þjóð með stóra atvinnugrein á fjármálasviðinu steypi sér í miklar ábyrgðir í fjárhæðum talið sem eru fyrir aðrar fjölmennar þjóðir kannski smápeningur. Við þurfum að hafa ábyrgðina bundna við stærð þjóðarinnar, svo sem þjóðarframleiðslu eða eitthvað slíkt, þannig að við getum verið með sambærilega stöðu og sambærilegar reglur og stórþjóðirnar innan Evrópska efnahagssvæðisins í hlutföllum talið en ekki í beinum fjárhæðum — það held ég að sé stóra gatið í þessari löggjöf.