136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson velti því fyrir sér í fyrri ræðu sinni hvort sú atburðarás sem við höfum orðið vitni að á síðustu dögum og vikum leiddi til þess að við gætum dregið þá niðurstöðu af því öllu að lög um fjármálafyrirtæki eða önnur lög væru gölluð. Hann velti því fyrir sér hvort á þeim lögum væru gallar og hvort ástæða væri til að bregðast við. Við þær aðstæður sem uppi eru núna er ljóst að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis og við verðum að horfast í augu við það. Skiptir þá engu hvort um er að ræða framferði fjármálafyrirtækja við stofnun reikninga í útibúum sínum annars staðar eða lögin sjálf.

Þegar rykið er sest þarf að vega það og meta hvort ágallar eru á þeirri löggjöf sem fjármálafyrirtækin starfa eftir. Það er rétt sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á að Fjármálaeftirlitið getur samkvæmt núgildandi lögum um fjármálafyrirtæki bannað stofnun útibúa. Einhverra hluta vegna var það ekki gert í þessu tilviki. En menn hljóta líka að velta því fyrir sér hvort íslensk stjórnvöld hafi á grundvelli EES-samningsins tækifæri til að setja strangari reglur en gert hefur verið, m.a. hvað varðar tryggingar á þeim innlánum sem eru í útibúum íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis til að tryggja að ef illa fer beri fyrirtækin sjálf ábyrgð á þeim innlánum sem tapast en ekki íslenska ríkið og íslenskir skattgreiðendur eins og raunin virðist ætla að verða í þeim málum sem við höfum fylgst með á undanförnum dögum og vikum.