136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég dreg enga dul á að við Íslendingar erum í þungri og erfiðri stöðu og ljóst að margt hefur farið úrskeiðis sem við þurfum að skoða og við verðum að læra af þessari reynslu. Eins og hv. þingmaður Ágúst Ólafur Ágústsson og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sögðu verður að skoða eftirlitsstofnanir, ferli og löggjöf okkar. Þetta má aldrei koma fyrir aftur. Miklu máli skiptir að samstaða takist meðal stjórnar og stjórnarandstöðu í sátt við fólkið í landinu um það hvernig sú skoðun fari fram. Hún verður að vera gagnsæ, opin, kristaltær og tryggja að ekkert sé falið og öllum sé heimilt að spyrja þeirra spurninga sem þarf að spyrja. Það er mjög mikilvægt.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði síðan hverjir hafi eftirlit með ríkisstjórninni í þessu máli. Ég vil að það komi skýrt fram að viðræðurnar við Hollendinga um helgina leiddu til ákveðins samkomulags sem við köllum „memorandum of understanding“. Þær viðræður sem fóru fram við Breta komust mun skemmra.

Höfuðmáli skiptir að engir samningar eru gerðir án fyrirvara um samþykki Alþingis. Löggjafarsamkundan tekur að lokum ákvarðanirnar sem munu ráða öllu í þessu máli. Ég vil að ljóst sé að samningar af þessu tagi, sem hugsanlega kunna að binda bagga á herðar þjóðinni, eru ekki gerðir öðruvísi en með fyrirvara um samþykki hins háa Alþingis.