136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er gamall kunningi hennar sem liggur fyrir þinginu og kannski ekki bara málið sjálft heldur líka niðurstaðan. Sú niðurstaða sem hér er lögð fram í formi frumvarps, tillaga um frestun, kemur úr nefnd sem menn skulu hafa í huga hvernig varð til.

Þegar sáttargjörðin var gerð eina nóttina einhvern tíma að vetrarlagi 2006 var það hæstv. þáv. iðnaðarráðherra sem kom í þann stól sem ég stend í núna og lýsti yfir ákveðnum hlutum. Hún lofaði þingheimi því að sett yrði nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Ég efndi það loforð fyrir núv. hv. þingmann. Varla getur hún síðan komið hingað og kvartað undan því að einróma niðurstaða nefndar sem hún á frumkvæði að skuli vera lögð fyrir þingið.

Hv. þingmaður segir að þetta sé neyðarlegt fyrir ríkisstjórnina. Ef þetta er neyðarlegt fyrir einhvern er það fyrir hv. þingmann sem er ljósmóðirin að þessu máli og á frumburðarréttinn að þeim tillögum sem liggja fyrir um frestunina. Það var jafnframt fulltrúi Framsóknarflokksins sem sat í þessari nefnd sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lagði til á sínum tíma að yrði stofnuð. Hann skar sig ekki frá öðrum nefndarmönnum. Eins og ég hef skilið málið er nefndin einróma um að leggja þennan málatilbúnað fyrir og svo kemur hv. þingmaður og segir að það sé neyðarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin skuli ekki hafa getað náð niðurstöðu. Það var hv. þingmaður sem bjó til þennan farveg með yfirlýsingu sinni nóttina frægu.

Ég tók málið í arf frá henni, hún hafði sjálf ekki uppfyllt orð sín. Ég gerði það fyrir hana. Það er sjálfsagt af minni hálfu að ég dragi mína ágætu vini í Framsóknarflokknum að landi hvenær sem þeir vilja og hvenær sem þörf er á.