136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:07]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að mótmæla því harðlega sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um að sú niðurstaða sem nefndin komst að og frumvarpið sem hér er til umræðu lýsi einhverri vandræðalegri stöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og að sagt sé að Sjálfstæðisflokkurinn eigi nú í einhverjum erfiðleikum með að standa á bak við lögin sem samþykkt voru árið 2006. Sjálfstæðisflokkurinn, þar á meðal ég, á ekki í nokkrum vandræðum með það.

Mér finnst ansi hart að fá svona gusur framan í mig frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur vegna þess að ég man ekki betur en ég hafi verið hér blóðugur upp að öxlum við að verja frumvarp hennar sem varð að lögum árið 2006. Ég stend alveg við það (Gripið fram í.) eins og fulltrúi Framsóknarflokksins í þeirri nefnd sem ég sat í.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ég tel ekki ástæðu til að breyta réttarstöðu landeigenda og vatnsréttarhafa umfram það sem gert hefur verið frá árinu 1923 eða hvað varðar lögin frá 2006. En mér finnst, eins og Sjálfstæðisflokknum, fullkomlega sjálfsagt að útskýra betur í íslenskum lögum almannarétt þegar kemur að vatni ef fram koma athugasemdir úr samfélaginu t.d. um að endurskoða þurfi stjórnsýslu vatnamála, fara yfir hana og einfalda eftir atvikum. Það er sú niðurstaða sem nefndin komst að, að einfalda stjórnsýslu vatnamála og útskýra betur réttindi almennings til vatns. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti ef stjórnmálaflokkar eru ekki tilbúnir til að leggjast yfir og skoða réttmætar athugasemdir frá almenningi um að íslensk lög tryggi ekki nægilega réttindi þeirra til vatns.