136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:20]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram sem að sumu leyti hefur einskorðast við það að stjórnarandstaðan hefur reynt að kasta rýrð á þá niðurstöðu sem fékkst þrátt fyrir að fulltrúar hennar hafi tekið þátt í nefndarstörfunum og staðið einhuga að baki og ekki einungis það heldur lagt mjög gott til í nefndinni. Í sjálfu sér er það kannski ekki umræðan sem skiptir sköpum hér en ég leiddi þessa nefnd og ég vil byrja á því að þakka sérstaklega þeim sem tóku þátt í störfum nefndarinnar sem stóðu sig að mínu viti framúrskarandi vel.

Nefndin hafði ekki mikinn tíma til að vinna þetta mál, einungis um sex mánuði eða svo. Hún tók í raun við verkefni sem ég held að ég geti sagt að hafi valdið meiri deilum á Alþingi en flest önnur mál í áratugi liggur mér við að segja. Verkefni nefndarinnar var mikið og snúið. Eftir umræðuna sem þar fór fram og eftir að nefndin hefur skilað skýrslu sem er á þriðja hundrað blaðsíður þá vil ég segja að sú ákvörðun var tekin strax í upphafi af hálfu nefndarinnar að reyna að vinna málið á þann veg að losna úr þeim hnút sem umræðan á Alþingi var komin í og reyna að dýpka hana og kalla til verka fræðimenn eins og nokkur kostur var til að greina þá stöðu sem var uppi, varpa fram spurningum og leita eftir svörum.

Ég vil líka nefna það við þessa umræðu að nefndinni var ekki falið og hún hafði ekki umboð til að leggja fram frumvarp, heildstætt frumvarp, heldur átti hún fyrst og fremst að taka á ákveðnum þáttum. Það var aldrei verkefni nefndarinnar þó að hv. stjórnarandstæðingar vilji líta svo á að það sé merki um að ekki hafi verið sátt í nefndinni, sem skilaði einhuga niðurstöðu, að hér liggi ekki fyrir frumvarp, enda var það aldrei ætlun nefndarinnar.

Nefndin fór yfir málin og kallaði til fjölda sérfræðinga, lagði fram spurningar o.s.frv. Niðurstaða hennar er að endurskoða skuli gildandi vatnalög frá árinu 2006 og eru tillögur hennar tilgreindar í fjórum liðum. Í fyrsta lagi er skilgreining á eignarráðum landeigenda. Það er kannski stóra atriðið sem umræðan sem hér fór fram fyrir rúmlega tveimur árum eða svo spannst um. Í öðru lagi er lagt til að markmiðsákvæði laganna verði endurskoðuð frá grunni sem þýðir það að lögin verða endurskoðuð frá grunni. Þriðja tillagan varðar stjórnsýsluþátt laganna. Farið var vandlega yfir stjórnsýslu laganna og í þeirri yfirferð kom fram að þar er mjög margt sem má bæta og þetta er allt lagt til.

Það er kannski grundvallaratriði þegar öllu er á botninn hvolft að þegar málið var lagt fram á sínum tíma árið 2006, var sagt að með framlagningu frumvarpsins væri ekki ætlunin að breyta neinni réttarstöðu frá því sem var og gilti í lögunum frá 1923. Við rannsókn nefndarinnar kemur í ljós, og vísa ég þar m.a. til fræðimanna eins og lagaprófessoranna Sigurðar Líndals og Eiríks Tómassonar sem báðir tilgreina það, að möguleikar löggjafans til að gera breytingar þrengjast mjög ef lögin taka gildi óbreytt. Það var grundvallarforsenda 2006 að ekki væri um að ræða neinar breytingar hvað þetta varðaði frá lögunum 1923. Þegar svona athugasemdir koma fram hljótum við að taka þær mjög alvarlega. Ég tel að nefndin sem vann þessa vinnu hafi skilað nýjum grunni að umræðu um vatnalög, nýjum grunni að umræðu um vatnið, og að vatnið sé kannski dýrmætasta auðlindin sem við eigum. Við þurfum því að ganga mjög varlega um þegar við setjum reglur um vatnið. Ég held að það sé ágætt að hafa í huga að þegar Norðmenn settu ný vatnalög eyddu þeir 10 árum í undirbúning þeirrar löggjafar. Þeir töldu vatnið það mikilvægt. Í Noregi liggur reyndar fyrir hæstaréttardómur um að enginn geti átt vatnið þannig að það fyrirkomulag liggur fyrir. En Norðmenn eyddu 10 árum í undirbúning slíkrar löggjafar og vildu vanda til verka eins og nokkur var kostur. Ég tel mjög mikilvægt að við gefum okkur góðan tíma til að fara yfir þessi mál og gera þetta þannig að um vatnsauðlindina náist mikil og víðtæk sátt í íslensku samfélagi. Það er ekki við það búandi að við efnum til frekari ófriðar um auðlindir en þegar hefur verið gert. Við hljótum að gera lært af því sem liðið er. Niðurstaða vatnalaganefndar er tilraun til að búa til nýjan grunn undir þá umræðu sem ég tel að sé traustur og á grunni þeirrar vinnu og gagna sem þar liggur fyrir og vinnu sem eftir á að fara í, þá held ég að við munum fá vatnalög sem þjóðin getur verið stolt af.

Ég vil að endingu endurtaka þakklæti mitt til allra sem unnu með okkur í nefndinni. Ég held að segja megi að meira hafi verið lagt á nefndarmenn og starfsmenn en kannski var hægt að ætlast til á jafnskömmum tíma en þeir stóð vissulega undir því og lögðu margt til. Þetta er þverpólitísk sátt um erfitt deilumál og ég lýsi mikilli ánægju með þessa niðurstöðu og vonast til að í framhaldinu fáum við vatnalög sem við getum verið stolt af.