136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:27]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006, og endurskoðun þeirra. Þannig háttaði til þegar þessi lög voru undirbúin og samþykkt árið 2006 að þá átti ég sæti í hv. iðnaðarnefnd og fór í gegnum þann prósess sem þá var. Vegna orða hv. þm. Lúðvík Bergvinssonar, sem minnti okkur á að Norðmenn hefðu tekið sér góðan tíma, 10 ár, til að fara í gegnum sína löggjöf, þá minnist ég þess að þegar þau lög sem við búum við í dag, vatnalöggjöfin frá 1923, voru samþykkt lögðumst menn í mikinn víking. Þá voru nú ekki þrjár til fjórar eða upp í fimm til sex ferðir til Evrópu með þotum á degi hverjum en fyrir þessa lagasetningu fór sendinefnd frá Íslandi og kynnti sér hliðstæða löggjöf á Norðurlöndum þannig að það var gríðarlega vandað til þeirrar löggjafar sem sett var 1923 hvað þetta varðar.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs um þetta mál er einfaldlega vegna 2. gr. frumvarpsins þar sem nefndin, sem hefur greinilega unnið gríðarlega mikið og gott starf, kemst að þeirri niðurstöðu að iðnaðarráðherra skuli í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra skipa nefnd sem verði falið að endurskoða ákvæði laganna og skuli nefndin hafa hliðsjón af tillögum vatnalaganefndar. Þetta er nákvæmlega það sem ég vildi koma að og leggja inn í þessa umræðu til að sjá hvort hv. iðnaðarnefnd geti fallist á hugmyndir mínar hvað þetta varðar vegna þess að í athugasemdum um 2. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir því hvers vegna umhverfisráðuneytið á aðild að þessu máli. Þar er jafnframt gerð grein fyrir því hvers vegna forsætisráðuneytið hefur aðkomu að málinu og þar segir, með leyfi forseta:

„… um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, er gert ráð fyrir að samráð verði haft við umhverfisráðherra og forsætisráðherra um skipun nefndarinnar.“

Tillaga mín og ósk er sú að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi í þessa nefnd. Ósk mín snýr að því að hv. iðnaðarnefnd taki upp þá hugmynd og tillögu mína að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fái aðild að þessari nefnd þar sem hagsmunir landeigenda, landbúnaðarins og landsins fara svo saman, allt frá hálendinu sem hæstv. forsætisráðherra er að „covera“ og til landbúnaðarins vegna framræslu og notkunar á vatni við landbúnaðarstörf. Þetta er langveigamesta atvinnugreinin sem kemur að þessum ramma. Í þeirri vinnu sem fór fram í aðdraganda lagasetningarinnar 2006 sáum við hversu gríðarlega mikilvægt var að fá alla þá hagsmunaaðila, umsagnaraðila, sem tengjast landbúnaðinum með öðrum hætti, og ætla ég bara að nefna þá gríðarlegu framræslu, það mikla vatn sem landeigendur þurfa að sjá um að komist til sjávar án þess að skemma lönd og þess vegna tel ég nauðsynlegt að þetta ráðuneyti skipi í þessa nefnd.