136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

samvinnu- og efnahagsráð Íslands.

5. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að stofna samvinnu- og efnahagsráð Íslands. Flutningsmenn að tillögunni eru auk mín Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson, Birkir J. Jónsson, Bjarni Harðarson og Höskuldur Þórhallsson.

Þingsályktunin hljóðar svo:

„Alþingi beinir því til forsætisráðherra að koma á fót samvinnu- og efnahagsráði um efnahagsmál sem vettvangi stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila til að ræða og leita leiða til að styrkja íslenska atvinnuvegi og efnahag þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu skulu sitja forustumenn allra þingflokka, þ.e. formenn og varaformenn, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands.“

Þingsályktunartillagan er samin áður en öll þau stóru vandræði skullu á sem við glímum við þessa dagana og hefur það lengi verið skoðun okkar framsóknarmanna að slíkur þjóðarsáttarvettvangur sé mikilvægur. Slíkur vettvangur gæti verið mjög mikilvægur fyrir stjórnmálaflokkana og atvinnulífið til að hittast reglulega, jafnvel þó að allt sé í besta lagi og engar neyðaraðgerðir nauðsynlegar. Þeim mun mikilvægari er vettvangur sem þessi þegar til slíkra atburða hefur dregið eins og gerst hefur á Íslandi á síðustu vikum.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir:

„Íslenskt efnahagslíf glímir nú við mjög mikla erfiðleika. Þessir erfiðleikar stafa að talsverðu leyti af áföllum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Margt bendir hins vegar til þess að þeir stafi einnig að hluta til af sérstökum aðstæðum í íslensku efnahagslífi og efnahagsstjórn sem ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til.

Afar brýnt er að tekið verði á þessum efnahagsvandkvæðum af festu og ákveðni. Jafnframt eru vandkvæðin svo djúptæk og víðfeðm að á þeim verður ekki fundin viðunandi lausn nema þjóðin í heild taki höndum saman. Takist það ekki munu afleiðingarnar verða dýpri efnahagskreppa, meiri kjaraskerðing og stærri áföll heimila og atvinnulífs en ásættanlegt er.

Í ljósi þessara alvarlegu aðstæðna leggja flutningsmenn fram þingsályktunartillögu um að þegar í stað verði myndaður sérstakur samráðsvettvangur sem hafi það verkefni að leita hagfelldustu leiða út úr þeim efnahagskröggum sem þjóðin hefur ratað í. Þann hóp skipi:

1. Forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi (formenn og varaformenn).

2. Fulltrúar atvinnulífsins.

3. Fulltrúar launþega. 4. Fulltrúar sveitarfélaga.

5. Fulltrúar fjármálafyrirtækja.

6. Fulltrúar Bændasamtaka Íslands.

7. Fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja.

Þessum hópi til fulltingis verði:

1. Sérfræðingar á sviði efnahagsmála frá Seðlabanka Íslands.

2. Sérfræðingar á sviði efnahagsmála frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

3. Aðrir innlendir og erlendir sérfræðingar eftir þörfum hverju sinni.

Ráðinu verði falið að samræma leiðir út úr efnahagsvandanum og leggja grunn að styrku íslensku efnahagslífi til frambúðar með það að leiðarljósi að styrkja útflutning og framleiðslu atvinnulífsins og þjóðarsparnað. Hlutverk hópsins er fagleg úrlausn þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskap Íslendinga og hefja það brýna úrlausnarefni yfir pólitíska togstreitu.“

Ég ætla ekki að flytja alla þá greinargerð sem fylgir málinu en eins og ég sagði er þingsályktunartillagan samin í september í undirbúningi þingsins með það að leiðarljósi að skapa þann vettvang sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir í þeim vandræðum sem hafa farið vaxandi síðustu árin og mjög svo núna síðustu mánuðina. Ég hygg að hæstv. forsætisráðherra finni það nú í öllum þeim vandræðum sem ríkisstjórn hans stendur frammi fyrir, bæði hér heima og erlendis, að mikilvægt er að forustumenn stjórnmálaflokka hittist, sérstaklega þeir sem halda utan um stærstu hreyfingar atvinnulífs og verkalýðs á Íslandi með sérfræðingum og því færasta fólki sem völ er á.

Fundirnir þurfa ekkert að vera langir. Þeir geta verið mikilvægir í góðæri til að menn komi saman og velti hlutum fyrir sér og flytji varnaðarorð við slíkt borð. Þeir geta verið enn þá mikilvægari og hefðu verið það, eins og við framsóknarmenn höfum margrætt hér í þinginu og samfélaginu á síðustu mánuðum, til þess að sporna og vara við og fara yfir þá þróun sem átti sér stað smátt og smátt á Íslandi. Þarna gæti atvinnulífið komið með hugmyndir og umræður um framtíðarsýn sína. Eins gætu stjórnmálaflokkar komið með allar sínar athugasemdir og tillögur til umræðu á slíkum vettvangi.

Í þeirri djúpu kreppu sem skollin er á heimsbyggðinni og er mjög alvarleg á Íslandi skulum við gera okkur grein fyrir að enginn lifandi maður sá hana fyrir, hvorki hér né erlendis. Margir óttuðust að erfiðleikarnir gætu orðið mjög alvarlegir en að það gerðist sem nú hefur gerst í mörgum þjóðlöndum er að hinir gamalkunnu bankar, 150 og 200 ára gamlir, stór og öflug fyrirtæki um allan heim, eru fallnir. Síðan féllu hin kappsömu íslensku fyrirtæki, sem fóru offari að einhverju leyti, ekki síst í undanfara kreppunnar sem einkenndist af mjög ódýru fjármagni um víða veröld, af lágum vöxtum og miklu framboði á peningum, þó að það komi í ljós að það var gert með misjöfnum hætti.

Við framsóknarmenn hvöttum ríkisstjórnina strax til þess — ég vil halda því til haga hér, við fluttum um það margar ræður eftir að hún tók til starfa — að taka strax á þeim vanda sem vissulega var til staðar í of mikilli þenslu í landinu og gálausri siglingu á ýmsum sviðum sem fylgdi því ódýra fjármagni sem hér hafði komið inn. Við getum t.d. nefnt hvernig bankarnir fóru í Íbúðalánasjóð 2004 og ætluðu að velta honum um koll og út af markaði með 100% lánum. Það er gæfa fólks á Íslandi að Íbúðalánasjóður stendur sterkur eftir. Honum var ekki raskað, um hann stóðu margir vörð og fyrir það ber að þakka. Hann er ljós í myrkrinu sem lýsir okkur fram á veginn. Við búum í öruggara samfélagi þess vegna.

Ég vil einnig halda því til haga að hinn 31. mars 2008 fannst okkur framsóknarmönnum ástandið fram undan það alvarlegt að við lögðum fram tillögu um víðtækar efnahagsaðgerðir til að styrkja gjaldeyrisforðann um 500 milljarða. Við lögðum til að opna skyldi Íbúðalánasjóð til þess að taka strax við fasteignalánum banka til að létta baráttuna og jafnframt að endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans sem fyrst til þess að koma í veg fyrir enn frekari vandræði hvað atvinnulífið varðaði. Við lögðum þá tillögu fram og héldum á þeim tíma ágætan blaðamannafund til þess að kynna varnaðarorð okkar.

Í maí báðu hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin um samstöðu gagnvart því að leitað yrði eftir því að styrkja gjaldeyrisforðann með 500 milljarða lánsheimild sem veitt var af þinginu en því miður ekki efnd. Um það þýðir ekki að tala hér við þessar aðstæður.

Ég vil líka minna á tillögu okkar frá 11. júlí þar sem við töldum algjörlega brýnt að ganga til þjóðarsáttarverkefna á því plani sem ég legg hér til, til þess að standa vörð um íslenskt samfélag á miklum erfiðleikatímum. Við framsóknarmenn sáum það ekki fyrir frekar en aðrir hvaða voði mundi hér skella yfir. Við óttuðumst samt sem áður fjármálakreppuna, við gagnrýndum andvaraleysið og hvöttum ríkisstjórnina til dáða nánast í hverri viku til þess að búa sig undir þessi vandræði. Nú eru þau orðin staðreynd og við verðum að vinna sem best úr því, bjarga því sem bjargað verður. Þess vegna var það svo á hinum erfiða mánudegi þegar neyðarlögin voru sett að við lögðumst í lið með ríkisstjórnarflokkunum eins og reyndar allir aðrir flokkar á þeim degi. Við studdum þá löggjöf til loka fyrst og fremst til þess að öll úrræði væru í þeim björgunarbát, sem ég kallaði svo, til að skuldsetja ekki um of framtíðina, að við yrðum að höggva á og skipta bankafyrirtækjunum upp hvað íslenska og erlenda hagsmuni varðaði. Ég heyrði þó engan tala um annað, hvorki ráðamenn né aðra, en að við mundum gæta þess og yrðum með einhverjum hætti að bera ábyrgð á peningalegum eignum erlendis og annars staðar.

Þó að bankarnir hafi farið að með mjög ólíkum hætti, eins og hér hefur komið fram, stofnaði Kaupþingsbankinn sem betur fer til útibúa sem voru erlendir bankar í dótturfyrirtæki í þeim löndum sem þeir störfuðu. Innlánsféð var á ábyrgð þeirra þjóðlanda sem þeir störfuðu í. Það var gert með öðrum hætti í Landsbanka Íslands og er Icesave-málið langerfiðasta málið við þessar aðstæður, hvernig það fór og stendur nú. Það sem mér finnst langmikilvægast sem stjórnmálamanni fyrir Ísland er spurningin um hvernig hið nýja Ísland rís þegar storminum linnir og siglingin getur hafist af krafti á nýjan leik. Ég hef miklar áhyggjur af því ef menn skuldsetja íslenska ríkið svo að það hvorki rísi né sigli, ef horft er til framtíðar. Það er auðvitað alvarlegur hlutur. Þess vegna verður að gera málið upp heildstætt og vinna úr því þannig að við sjáum framtíðina bjarta. Það verður gert ekki öðruvísi en að reyna að ná öllum þeim eignum til þess að gera upp skuldirnar, láta ekki hrægamma, erlenda eða innlenda, komast yfir þær og eyðileggja þann auð sem þjóðin á rétt á núna til þess að nýta til þessa. Að skuldirnar verði sem minnstar þegar upp verður staðið því að ef íslenska ríkið þarf að skuldsetja sig fyrir hundruð milljarða er ljóst að erfiðir tímar eru fram undan.

Okkur ber við þessar aðstæður fyrst og fremst að hugsa um að unga fólkið búi áfram á Íslandi og að hér verði áfram einhver bestu lífskjör í veröldinni, það eigum við að geta tryggt. Við eigum margt sem aðrar þjóðir eiga ekki. Við eigum auðlindir hafsins, við eigum auðlindir í orku, við eigum auðlindir í mannauði, en unga fólkinu verðum við að halda heima. Við megum heldur ekki ganga svo langt í þessari umræðu að segja að allir athafnamenn séu glæframenn því að það eru þeir sannarlega ekki. Við þurfum á dugnaði þeirra að halda og þar verðum við að skilja á milli í umræðunni. Við þurfum á þeim við að halda eins og allri alþýðu manna við þau stóru og erfiðustu verkefni sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir.

Það er því brýn tillaga og þingsályktun sem ég flyt hér og hana er auðvitað hægt að framkvæma án þess að hún verði að ályktun Alþingis þar sem forsætisráðherra gæti einn og sjálfur ákveðið slíkan vettvang til þess að ná betur saman með öllum lykilaðstæðum þessa þjóðfélags. Það væri alvarlegur hlutur nú við þessar aðstæður að stjórnarflokkarnir, sem tala hvor úr sínu horninu, sundruðust. Ofan í hina miklu kreppu kæmi pólitísk kreppa og sundurlyndi í stjórnmálunum. Þess vegna slíðruðum við framsóknarmenn sverð okkar. (Forseti hringir.) Stjórnarandstaðan gerir sér (Forseti hringir.) grein fyrir því að þetta er dauðans alvara. Við þurfum að eiga samstætt Alþingi og forustumenn (Forseti hringir.) til þess að takast á við hin stóru verkefni samtímans.