136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

samvinnu- og efnahagsráð Íslands.

5. mál
[14:48]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar sem borin er fram af hv. þm. Guðna Ágústssyni og fleirum og tek undir þau sjónarmið og rök sem komu fram í málflutningi hans. Það er mun mikilvægara nú en sjálfsagt þegar þessi þingsályktunartillaga var í undirbúningi að koma á fót samvinnu- og efnahagsráði um efnahagsmál á vettvangi stjórnmálaflokka svo sem hér er lagt til. Ég tel, virðulegi forseti, að hefðum við staðið þannig að málum að um hefði verið að ræða virkt samráð um efnahagsmál milli stjórnmálaflokkanna svo sem verið er að tala um hér þá hefði sjálfsagt ýmislegt unnist sem ekki vannst vegna þess að slíkur vettvangur var ekki til. Ég vil benda á að við talsmenn stjórnarandstöðunnar, sennilega fáir oftar en hv. þm. Guðni Ágústsson og sá sem hér stendur, höfum varað við því í hvers konar ástandi þessi þjóð væri að lenda, við hverju mætti búast ef ekki væri brugðist við tímanlega.

Þessi varnaðarorð féllu fyrir ofan garð og neðan og ítrekað var haldið fram af viðkomandi ráðherrum að ekki væri ástæða til aðgerða á þeirri stundu og þau orð hafa fram að þessu verið einkenni og viðhorf ríkisstjórnarinnar. Það vantaði og þrátt fyrir að ítrekað væri kallað eftir aðgerðum, ítrekað bent á misfellur, bent á að íslenskt atvinnulíf væri að kólna og það væri með öllu óskiljanlegt, það væri gjörsamlega glórulaust að Seðlabanki Íslands hefði stýrivexti allt að þrefalt, fjórfalt hærri en tíðkast í okkar heimshluta og þetta væri að kyrkja íslenskt atvinnulíf, samt sem áður var ekki talin ástæða til aðgerða. Jafnvel nú, þótt fyrir liggi og hafi legið fyrir í meira en viku að það er komin veruleg kólnun í íslensku atvinnulífi meðal annars vegna þeirra háu stýrivaxta og lánakjara sem fyrirtækjunum og fólkinu í landinu er boðið upp á, þá samt sem áður þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir því úr ýmsum áttum þá hefur ekki verið orðið við því að hér yrðu stýrivextir lækkaðir með þeim hætti að það væri hægt að búa atvinnufyrirtækjum og fólkinu í landinu eðlileg lána- og vaxtakjör.

Í yfirlýsingu í dag sagði hæstv. forsætisráðherra að beðið væri eftir nýrri þjóðhagsspá og á grundvelli hennar mundi Seðlabankinn hugsanlega gera eitthvað varðandi stýrivexti. Mér er spurn: Eru ráðamenn þjóðarinnar sem eru múraðir inni í Seðlabankanum eða Stjórnarráðinu svo gjörsamlega úr tengslum við íslenskt atvinnulíf og þjóðlíf að þeir átti sig ekki á því, þeir sjái ekki hvernig hlutirnir eru, sjái ekki að byggingakranarnir hafa stöðvast, sjái ekki að íslenskt framtak og atvinnulíf hefur verið drepið í dróma vegna þess að ekki verður hægt að fá fyrirgreiðslu á viðunandi kjörum sem viðkomandi atvinnurekstur getur staðið undir? Þá spyr ég: Gæti verið, er líklegt, er hugsanlegt, má ætla að efnahagsráð eins og það sem hér er verið að tala um gæti einmitt ekki í þessum tilvikum knúið á um að fyrr yrði brugðist við og með öðrum hætti eða alla vega gerðar tillögur um það sem hlustað væri á meira en það sem hv. þingmenn segja hér og varnaðarorð sem við erum að mæla úr ræðustóli Alþingis?

Ég hygg að í efnahagsráði eins og því sem verið er að tala um hér mundu fara fram faglegar umræður. Fyrir ráðið kæmu aðilar sem hefðu bestu og mestu þekkingu og yfirsýn um efnahags- og atvinnumál í landinu þannig að á þeim grunni gætu nefndarmenn markað sínar ákvarðanir. Ég vek athygli á einu: Þrátt fyrir það, virðulegi forseti, að nú hafi tæpir tíu dagar liðið síðan Alþingi samþykkti sérstök neyðarlög, ráðstafanir vegna þess efnahagsöngþveitis sem við erum komin í — og við höfum horft á blaðamannafundi og ákveðið samráð hefur verið tekið upp við ríkisstjórnina — skortir samt á að Alþingi Íslendinga hafi fengið nokkrar þær tölulegu forsendur sem á er hægt að byggja varðandi það hver vandinn er eða getur verið eða kann að verða í íslensku efnahagslífi og hvaða skuldir og skuldbindingar íslenskir skattgreiðendur eiga og þurfa að taka á sig. Ég fæ ekki betur séð en að ýmsir ráðamenn þjóðarinnar hafi verið heldur ginnkeyptir fyrir því að lofa og fullyrða að ákveðnir hlutir sem engin lagaheimild er fyrir og engin lagaskylda hvílir á ríki að bæta — þ.e. hafi jafnvel lofað upp í ermina á sér hvað það varðar. En þau atriði hljóta að koma til kasta Alþingis þó síðar verði.

Ég hjó eftir einu í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar þegar hann talaði um að þó að hér yrðu efnahagsþrengingar þá skipti miklu máli að við misstum ekki hæfileikaríkt fólk úr landi, að við misstum ekki unga fólkið úr landi og það er sú mesta hætta sem við stöndum frammi fyrir í dag í þessu þjóðfélagi. Við eigum mikið af vel menntuðu, hæfileikaríku ungu fólki. Ákveðinn hluti af þessum góða hópi hefur verið að missa vinnuna á undanförnum dögum. Það hefur orðið gríðarlegt gengisfall á íslensku krónunni, lífskjör í landinu hafa versnað gríðarlega mikið og það sem gerist í löndum þar sem lífskjör verða mun verri en annars staðar í viðkomandi heimshluta þá greiðir fólk atkvæði með fótunum, sérstaklega unga fólkið. Það er keppikefli og hlýtur að vera markmið okkar allra, hvar svo sem við stöndum hvað varðar flokkaskipan eða pólitík, að standa saman um að koma hér á þjóðfélagi sem býður borgurum sínum upp á bestu lífskjör þannig að borgararnir gera ekki eins og gerðist í Austur-Þýskalandi forðum að greiða atkvæði með fótunum. Það er keppikeflið, sú viðmiðun sem við keppum að og verðum að miða við.

Það er fyrirsjáanlegt að það mun þrengja að á næstu árum. Spurningin er hvernig við getum sem best komist frá hlutunum með eðlilegum hætti og ég tel að sú tillaga sem hér er lögð fram sé eitt atriði í þá veru.

Ég hjó eftir einu í upplýsingum í riti sem var í pósthólfi okkar þingmanna í dag. Þar eru upplýsingar frá fyrirtæki sem heitir Creditinfo Ísland og þar er fjallað um hvernig vanskilum eða skilum íslenskra aðila og fyrirtækja líður. Þá tek ég eftir því — þetta eru upplýsingar frá því í október 2008 — að Íslendingar staddir erlendis eru taldir vera rúmlega 46 þúsund manns. Þetta er tæplega 20% þjóðarinnar samkvæmt þessum niðurstöðum. Þetta er gríðarlega há tala. Við vitum að ákveðinn hópur Íslendinga fer til náms erlendis. En þarna er ljóst að mjög stór hópur Íslendinga er staddur erlendis í vinnu og störfum og út af fyrir sig er ekkert út á það að setja sem sýnir að Íslendingar láta ekki hefta sig. Þeir sækja þangað sem hugurinn ber þá og þar sem þeir sjá fram á að þeir geti lifað góðu lífi þó „römm sé sú taug sem rekka dregur ...“ eins og við þekkjum. En þá skulum við ekki treysta um of á það vegna þess að í nútímasamfélagi skiptir máli að við mótum það samfélag sem býður fólki upp á velferðarþjóðfélag og eðlileg og góð lífskjör í samræmi við það sem best getur gerst í okkar heimshluta. Ég tel að það sé það keppikefli sem við eigum öll að standa saman um að móta og vinna að og ég tel að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé tillaga í átt að því markmiði.