136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[15:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað ég á að vera að teygja þetta lengur. Mér er næst skapi að láta það standa hér í loftinu að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hv. þm. Björn Valur Gíslason séu að þjónka sægreifunum í landinu, (GMJ: Gerið það með veiðileyfagjaldinu.) einhvern veginn finnst mér það vera … Það getur vel verið að hv. þm. Grétari Mar Jónssyni finnist sanngjarnt að taka peninga út úr greininni til að setja inn í hana aftur þegar illa gengur. Mér finnst samfélagsleg ábyrgð á fiskveiðistjórnarkerfinu vera meiri og að þjóðfélagið eigi allt að koma að því þegar illa gengur í sjávarútvegi frekar en að mjólka hann innan frá. En okkur kann að greina á um það.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að vera að teygja þetta lengur, það virðist vera ómögulegt fyrir mig að koma því inn í höfuðið á hv. þingmanni hver skoðun mín er á fiskveiðistjórnarkerfinu og því kerfi sem við búum við þar almennt. Ég held ég láti orð mín á Alþingi, þau mál sem ég hef flutt og málflutning minn innan og utan þings standa fyrir því. Ég nenni ekki að eyða tímanum frekar í þetta karp.