136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Magnússon sagði að það megi veiða meira af fiski í dag en við gerum og ég er honum hjartanlega sammála um það. Ég þekki það af eigin raun í starfi mínu sem sjómaður að það er óhætt að mínu viti og held ég flestra annarra í minni stétt að óhætt sé að veiða meira og þá sérstaklega af þorski en hefur verið gert.

Það sem ég var að meina með tali mínu áðan — og ég tel að við hv. þm. Jón Magnússon séum sammála um það, er að óheftar veiðar eða óheft aðkoma að þessari auðlind eða óheft nýting auðlindarinnar sé ekki það sem andstæðingar kvótakerfisins biðja um og krefjast. Með því að vilja bregðast eðlilega við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna erum við ekki að kalla eftir því, síður en svo. Við erum miklu frekar að kalla eftir því að aðgangi að auðlindinni verði skipt jafnar og réttlátar milli þjóðfélagsþegnanna en hefur verið gert og ég held að við verðum að undirstrika það vel í þessari umræðu.