136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú þekki ég ekki vel til þess hvernig umræður um mál fara fram yfirleitt, nema með mjög grófum hætti, en ég ætla að leyfa mér að efast að það sé mjög algengt að flutningsmenn mála, þingsályktunartillagna eða lagafrumvarpa, hnýti með þeim hætti í meðflutningsmenn sína eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson er að gera. Ég ætla að leyfa mér að efast um að menn hafi oft séð ástæðu til að efast um hug meðflutningsmanna sinna að málum. Ég veit ekki hvers konar málflutningur þetta er að verða hjá hv. þingmanni, ég verð að segja það eins og það er. Auðvitað er verið að ræða um mannréttindamál og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni í þeim málum og ég vona að hann sé sammála mér. Ég veit ekki betur en hv. þingmenn Vinstri grænna sem eru meðflutningsmenn hans að þessu máli séu sammála hv. þingmanni. Ég skil hreinlega ekki hvert hann er að fara með þessari umræðu, ég verð að viðurkenna það. Það er engin leið að botna í því hvert hann ætlar að leiða umræðuna og hvar hann er að leita andstæðings við stjórn fiskveiða. Ég skil ekki þennan málflutning. Ég ætla að láta þetta duga í dag í þessari umræðu.

En varðandi þetta mál, svo ég ítreki það enn og aftur, í fimmta eða sjötta skipti, þá tel ég að verið sé að brjóta mannréttindi á Íslendingum með íslensku fiskveiðistjórnarkerfi. Það hefur margoft komið fram í máli mínu bæði í dag og í gær og á þeim fundum sem ég hef setið hér áður. Ég hef lagt fram mál þess efnis margsinnis á Alþingi. Annað kann okkur kannski að greina á um, t.d. hvernig eigi að stýra fiskveiðunum, en ég skil ekki almennilega hvert þessi umræða er að fara. Ég óska þess að henni ljúki hér með.