136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:35]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra gaf okkur áðan munnlega skýrslu um stöðu bankakerfisins og þann vanda sem orðinn er í kjölfar gjaldþrots Landsbanka Íslands, Glitnis og Kaupþings eins og við þekkjum. En hvernig sem á skýrslu hæstv. forsætisráðherra er litið og málin metin er ekki hægt að komast hjá þeirri hugsun og niðurstöðu að ríkisstjórnin og stjórnkerfið brugðust. Okkur hefur verið sagt að hingað hafi borist skýrslur um hvað í vændum var en þeim var stungið undir stól vegna þess að þær þóttu innihalda skaðlegar upplýsingar um fjármálakerfi íslensku bankanna. Ljóst er að bæði Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið máttu sýna meiri leiðsögn við þessar aðstæður. Það var vísbending um lítið traust fjármálayfirvalda í Bretlandi á íslenskum fjármálafyrirtækjum að illa gekk að koma Icesave-reikningsstarfseminni í Landsbanka Íslands yfir í breskt fyrirtæki. Það bendir allt til þess að ráðherrarnir hafi sofið á vaktinni og þess vegna kom þetta okkur í svo opna skjöldu sem raun varð á. Fjöldamörgum spurningum er ósvarað og þrátt fyrir að mikið hafi verið unnið að þessum málum víða í kerfinu höfum við ekki fengið nein svör. Ég spyr, hæstv. forseti: Hvenær koma þau? Það má m.a. spyrja um eftirfarandi?

Var starfsemi bankanna eðlileg og lögleg síðustu vikur og mánuði? Hvenær fer rannsókn af stað um störf og stöðu þeirra sem stjórnuðu og áttu mest í bönkum? Seldir voru hlutir í Landsbanka Íslands skömmu fyrir gjaldþrotið. Af hverjum voru hlutirnir keyptir? Mun misferlið leiða til frekari bótaskyldu íslenska ríkisins sem ábyrgðaraðila? Vita svokallaðar skilanefndir í dag, þó að það hafi ekki verið upplýst, hvort íslenska ríkið hafi gengist í ábyrgð fyrir bankana víðar, hvort meira kemur í ljós og þá hvar, varðandi hvaða störf og starfslönd bankanna?

Í fyrradag bárust okkur fréttir um 46 milljarða ábyrgðir í Þýskalandi. Spyrja má um önnur lönd. Hvað með Lúxemborg? Hvað með Belgíu? Er von á meira og þá hvaðan? Það er von að spurt sé hvort við höfum heildaryfirlit í dag yfir skuldir og ábyrgðir Íslendinga og eignir bankanna á móti eins og þær eru metnar. Það er vissulega rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði í skýrslu sinni að það liggur mikið við að vernda eignir íslensku bankanna, reyna að viðhalda eignastöðunni og fá sem mest fyrir eignirnar til að minnka þær skuldbindingar sem ella munu lenda á íslenska ríkinu.

Þar sem minnst var á lán frá Rússum sem hafa boðið okkur fyrirgreiðslu af velvild, að því ég vil meina, hefði verið fróðlegt að fá svör við því hvort þau mál verða kláruð í dag, hvort sendinefndin í Rússlandi hefur það umboð að klára að ganga frá málum við Rússa með lánasamningi ef mál skipast með þeim hætti eða munu þau verk dragast á langinn? Þarf sendinefndin að koma heim til að fá nýtt og endurnýjað umboð til framhaldsins? Mér finnst skorta á að við fáum skýr svör þó að hæstv. ráðherrar komi og tali um vandamálin og skilgreini þau. Ég tel að taka eigi það lán sem Rússar bjóða, sérstaklega í núverandi stöðu. Það væri best að það lán væri áfangalán sem við gætum tekið eftir brýnum þörfum þjóðarinnar í áföngum eins og við sjálf teljum henta við núverandi aðstæður. Það væru líka skilaboð til þeirra þjóða sem veist hafa að okkur með óvild eins og ég tel að gert hafi verið undir forustu Gordons Browns. Þar hefur verið vegið að íslenskum hagsmunum með ódrengilegum hætti og allt að því unnin skemmdarverk gagnvart okkur Íslendingum.

Eitt er víst, hæstv. forseti, að við þurfum núna lánsfé án þeirra skilyrða sem við getum átt von á frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við þurfum að geta metið okkar eigin stöðu án þess að okkur séu sett of stíf skilyrði í núverandi stöðu. Við verðum að tryggja viðskipti okkar og gjaldeyrisforða sem allra fyrst og kortleggja stöðu okkar vegna þeirra áfalla sem glæfrafjárfestingar fárra manna hafa sett þjóðina í. Hvað gert verður við bankana í framtíðinni er síðari tíma mál. Við þurfum núna örugg og trygg bankaviðskipti. Áratugaviðskiptasambönd manna og fyrirtækja erlendis geta verið í hættu ef greiðslur í gjaldeyri eru fastar í kerfinu. Hvernig lítur ríkisstjórnin á að lífeyrissjóðirnir kaupi meiri hluta í Kaupþingi eins og látið hefur verið í ljós af þeirra hálfu? Hvernig á með þau mál að fara? Ætlar ríkisstjórn áfram að eiga í Kaupþingi ef af verður eða ætlar ríkisstjórnin að losa sig við það ef einhverjir fjárfestar vilja kaupa alla hluti. Ég vil lýsa skoðun minni á því máli: Ég tel að þó að lífeyrissjóðirnir kaupi 51% hlut í bönkunum eigi ríkissjóður samt sem áður ekki að selja allan sinn hlut, hann eigi að halda þar 30% að lágmarki. Það er skoðun mín í núverandi ástandi. Okkur liggur ekki á að selja bankana aftur í einkarekstur eftir þá meðferð sem íslenska þjóðin hefur fengið undir einkarekstri þeirra.

Hæstv. forseti. Á morgun er ætlunin að ræða fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008. Eins og ástandið er nú er að sjálfsögðu allt í uppnámi og sama má segja um fjárlög næsta árs. Vafalaust verðum við að skera niður á næsta ári þó að það verði ekki auðvelt, enda verðum við að standa að verklegum framkvæmdum og ríkissjóður þarf að vera virkur þátttakandi í því að halda uppi atvinnu á samdráttar- og jafnvel krepputímum. Við þurfum með öllum ráðum að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fólks og fyrirtækja svo að atvinnulífið haldi sem best áfram.

Ég spyr, hæstv. forseti, hvort ríkisstjórnin hafi rætt við aðila sem starfa á byggingamarkaði um horfur til þess að verkum verði haldið áfram? Það skiptir miklu fyrir atvinnustigið hvort verktakar í byggingarstarfsemi ná að halda áfram starfsemi sinni þó að vissulega sé ljóst að mínu viti að þar muni ekki allir halda velli. Hvers er að vænta varðandi aukningu kvóta í þorski og síld og hugsanlega öðrum fisktegundum nú þegar? Með því að auka kvótann mundum við stuðla að auknum tekjum. Ég heyrði orð hæstv. forsætisráðherra þar sem hann talaði um að það væri nokkuð sem við ættum í handraðanum fyrir framtíðina. Ég spyr hvort við þurfum ekki að bregðast við í núinu, afla okkur tekna, auka bjartsýni í íslensku þjóðfélagi og stuðla að auknu atvinnuöryggi. Framleiðsla, tekjur og störf eru skilyrði þess að við komumst sem best frá þeim þrengingum sem vissulega verða á vegi okkar Íslendinga næstu árin. Það mun reyna á velferðarkerfi okkar og afkoma aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og láglaunafólks verður erfið. En einkum þess vegna þurfum við að standa vörð um velferðarkerfi okkar og styrkja afkomu fólks eftir megni. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt það til með þingmáli í Alþingi að tekjur fólks úr almennum lífeyrissjóðum verði með frítekjumark gagnvart tekjutryggingu úr almannatryggingum líkt og atvinnutekjur og síðan séreignarsparnaður um næstkomandi áramót. Ég tel að sú tillaga sé þáttur í því að hjálpa fólki að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi, minnkandi tekjum og minni tekjumöguleikum.

Það var merkilegt að heyra fréttaviðtal Stöðvar 2 við Ágúst Einarsson, rektor við Viðskiptaháskólann í Bifröst, í gærkvöldi. Ágúst er, eins og kunnugt er, fyrrverandi alþingismaður jafnaðarmanna á Íslandi og nú síðast fyrir Samfylkinguna sem nú er í ríkisstjórn. Ágúst var ómyrkur í máli og sagði að stjórnvöld hefðu staðið sig afburðailla. Allt hafi verið gert vitlaust í þeirri kreppu sem steðjað hefur að og skollin er á af fullum þunga. Búið sé að leggja bankakerfið í rúst á tveimur og hálfri viku og búa þannig um hnútana að hér verður stórfellt atvinnuleysi og kjaraskerðing sem mun vara um mörg ár, jafnvel áratugi. Ágúst sagði einnig að þótt margt hefði verið óumflýjanlegt vegna ytri aðstæðna hefðu verið gerð mistök í þessu ferli. Hann talaði um dæmalaust viðtal bankastjóra Seðlabankans í sjónvarpi og viðtal íslenska fjármálaráðherrans við þann breska. Það hafi valdið því að mannorð okkar í viðskiptum erlendis sé nú „farið fjandans til“, svo að vitnað sé beint í orð rektors, með leyfi forseta, og óvíst hvenær við vinnum það aftur. Viðskiptaprófessorinn sagði að fyrir löngu hefði átt að vera búið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum. Töf á því valdi nú stórkostlegu tjóni.

Virðulegi forseti. Þar talaði einn af okkar virtustu fræðimönnum innan efnahagsmála og hagfræði. Hann er ekki samflokksmaður þess sem hér stendur heldur tengdur innsta hring Samfylkingarinnar, varfærinn og athugull maður, einn af okkar helstu trúnaðarmönnum í forustu Samfylkingarinnar. Varaformaður Samfylkingarinnar sagði í þinginu í gær að mikið hafi farið úrskeiðis í fjármálakreppu þjóðarinnar. En þegar hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var spurður um ábyrgð benti hann á Fjármálaeftirlitið og Landsbankann sem ekki fóru að kröfum Fjármálaeftirlitsins. Ég spyr, hæstv. forseti: Hvar var ríkisstjórnin og hið virka aðhald Samfylkingarinnar í þessum málum? Viðskiptaráðherra ber ábyrgð á þessum málum, eins og segir í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í 8. gr. laganna. Það geta þingmenn kynnt sér og lesið. Þar ber viðskiptaráðherra beina ábyrgð á því að sjá til þess að óeðlileg starfsemi haldi ekki áfram. Ég spyr hvort sú aðvörun sem viðskiptaráðherra á að senda bönkunum hafi verið send samkvæmt þeirri lagagrein. Voru ráðherrarnir á vakt, í þessu tilfelli hæstv. viðskiptaráðherra? Er það svo að stór hluti þingmanna Samfylkingarinnar reyni nú að færa ábyrgð sína sem aðilar að ríkisstjórn, yfir á aðra? Rætt er um aðild að Evrópusambandinu eins og það bjargi einhverju í þeirri stöðu sem við erum nú í. ESB-veiki sumra þingmanna Samfylkingarinnar skaðar okkur öll við núverandi aðstæður. Hún veldur okkur erfiðleikum og býr til þá skoðun í þjóðfélaginu að ríkisstjórnin sé alls ekki samtaka í málinu, höndli ekki málin sem verið er að vinna með. Ég mælist til þess að Samfylkingin ýti nú þeirri umræðu til hliðar þannig að hún valdi ekki frekari skaða á þessum erfiðu tímum en þegar er orðið. Ég tel að annað sé ábyrgðarleysi.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að íslenska þjóðin muni vinna sig út úr þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Það getur þurft að taka á mörgum erfiðum hlutum, skattbreytingum og mörgu öðru, en þá á sérstaklega að horfa til þeirra (Forseti hringir.) sem hafa ofurtekjur í þjóðfélaginu.