136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á mér brenna eins og hverjum öðrum Íslendingi margar spurningar við þær aðstæður sem nú eru uppi. Sú fyrsta snýr að hugmyndafræði, hugmyndafræðinni sem átti sinn þátt í því að fjármálakerfið raknaði upp eins og lausprjónuð lopapeysa og liggur nú eins og lúinn garnflóki. Við gætum rætt hvaða hugmyndafræði við ætlum að hafa þegar við fitjum upp á nýtt. Sjálf er ég ekki í neinum vafa um það. Nú er tími fyrir félagshyggju og jöfnuð, tími fyrir sjálfbæran hugsunarhátt á öllum sviðum samfélagsins.

Ég átta mig hins vegar ekki á því, herra forseti, hvert ríkisstjórnin stefnir í sínum hugmyndafræðilega prjónaskap. Hæstv. forsætisráðherra talaði hér um frjálsan markað. Viðskiptaráðherra talaði um að tími ofurlauna væri liðinn og kominn tími fyrir félagsleg gildi. Þarf það ekki að liggja fyrir hvert við stefnum, virðulegi forseti? Á að endurheimta gamla kerfið, gera það sama og áður? Á að stoppa í verstu götin með skýrari löggjöf og regluverki? Eða á jafnvel að gera róttækari breytingar á kerfinu og auka félagslegar áherslur í samfélagi okkar? Við verðum að hafa þessa spurningu í huga í öllu því sem gengur á.

Ég hef fleiri spurningar. Í gær var greint frá skýrslu tveggja hagfræðinga frá London School of Economics sem unnin var að beiðni Landsbankans. Í fréttum kom fram að hrunið hefði verið fyrirsjáanlegt. Ekki væri vafi á því hver bæri ábyrgð á því, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og fjármálayfirvöld. Þessari skýrslu, þar sem fram kom að bankakerfið mundi springa framan í okkur af því það væri orðið talsvert stærra en hagkerfi okkar, var stungið undir stól að beiðni fulltrúa ríkisstjórnarinnar, það kom fram í fréttunum. Hverjir eru þeir fulltrúar? Þarf ekki að svara því? Af hverju var ekki brugðist við? Mér er spurn.

Önnur spurning sem á mér brennur varðar gjaldeyrisvaraforðann blessaðan sem við vinstri græn lögðum til í mars sl. að yrði aukinn en fengum þá lítil viðbrögð. Síðan hefur þörfin bara vaxið og möguleikar á góðum lánskjörum minnkað. Allir eru sammála um að íslenska þjóðin þarf á lánsfé að halda en upplýsingarnar hafa verið misvísandi. Tilkynnt var um rússneskt lán og svo sagt að það væri reyndar ekki í höfn en það er verið að vinna í því, gott og vel. Rætt hefur verið um lánsfé frá Norðurlöndum. Er búið að leita til Norðurlanda umfram þær lánalínur sem komið var á í sumar? Hvernig stendur á því að fulltrúar norrænna ríkisstjórna segja að ekkert hafi verið talað við þá? Hefur verið leitað til annarra vinaþjóða okkar í Evrópu? Eða stefnum við beint á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Eru fjárhæðirnar sem við þurfum svo háar að við þurfum að fé frá öllum þessum aðilum? Fær Alþingi eitthvað að vita um þetta eða er þetta allt saman leyndó?

Þegar kemur að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mundi ég líka vilja vita hvað íslensk stjórnvöld ætla að biðja um. Er um að ræða lán? Ráðgjöf? Eða ferli sem mörg þróunarríki hafa lent í með misjöfnum árangri, mikilli markaðsvæðingu en ekki endilega framförum?

Spurningarnar hrannast upp. Í morgun er grein í Morgunblaðinu eftir Stefán Má Stefánsson og Lárus Blöndal þar sem því er haldið fram að ríkinu beri ekki lagaleg skylda til að tryggja innstæður umfram það fé sem liggur í innstæðu í tryggingasjóði. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni tryggja allar innlendar innstæður og það er gott, en þarf að skýra lagaheimildir fyrir þeirri yfirlýsingu?

Ef þetta liggur fyrir þá velti ég líka vöngum yfir misvísandi skilaboðum um það hvort eitthvað verði komið til móts við þá sem lögðu allan sinn sparnað í þessa blessuðu sjóði. Þeir sem lögðu fyrir í hverjum mánuði til að eiga eitthvað í ellinni, til að komast í sumarfrí eða til að stækka við sig og var sagt að þetta væri fullkomlega áhættulaust. Verður eitthvað komið til móts við þá?

Hvað með þau líknarfélög og góðgerðasamtök sem nú sitja handlama af því að allur sparnaður þeirra lá í þessum sjóðum? Og hver fylgist með ferlinu núna? Hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra tala um að helmingaskiptu bankaráðin, sem komið var á strax í byrjun, starfi tímabundið. Ég spyr: Hverjir eiga að hafa eftirlit með eignasölu bankanna núna? Hvernig hefur verið staðið að uppsögnum og mannaráðningum? Þarf ekki þingið að koma hér að?

Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að við getum lært margt af kreppunni, það er margt sem við þurfum að tileinka okkur. Við þurfum að fá rannsóknarnefndir. Við þurfum að fá hjálp erlendra sérfræðinga. Við þurfum að fela Ríkisendurskoðun hlutverk og þingið þarf að koma að þessum málum. Við verðum að endurskoða lagaumhverfið og hugmyndafræðina.

Hæstv. forsætisráðherra ræddi um þórðargleði þeirra sem töluðu um dauða kapítalismans. Hann er ekki dauður, hæstv. forsætisráðherra. Það er nú víst aldeilis rétt því að kreppan sem nú ríður yfir er ekkert frávik frá gangverki hans. Hún er eðlilegur hluti hans — loftbólan þar sem reynt er að hámarka skyndigróðann og hrunið sem kemur á eftir. Á þessu áttuðu menn sig eftir heimskreppuna og þess vegna varð velferðarkerfið til eins og við þekkjum það í dag og blandað hagkerfi. Það er nefnilega ekki hægt að búa við hreinan kapítalisma. Sá lærdómur sögunnar er fyrir hendi einu sinni enn og við verðum að læra af því. Ég segi því: Það er rétt að láta hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar gossa og setja núna félagshyggjuna í öndvegi.