136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Magnússon (Vg):

Frú forseti. Þegar vel árar eru menn ekki að hugsa um jafnrétti eða jöfnuð þegnanna heldur gleðjast yfir öllum stóru molunum sem hrjóta af allsnægtaborðinu. Frjálshyggju, útrás og svokallaða velmegun síðustu árin á Íslandi má líkja við Titanic, skipið sáluga. Þar hélt almúginn til í þrengslum þriðja farrýmis og einn og einn stalst upp í dýrðina á meðan fína og ríka fólkið boltraði í óhófi og lúxus á fyrsta farrými. En þegar gat kom á skrokkinn og sjórinn byrjaði að fossa inn bitnaði það fyrst á þeim sem neðst voru í skipinu. Og ekki nóg með það, ekki voru til nægilega margir björgunarbátar. Hver reyndi að bjarga sér í óðagoti. Þeir sem voru neðst í skipinu áttu óhægt um vik að ekki sé talað um þau sem stríða við einhvers konar fötlun eða hömlur.

Frú forseti. Það er einmitt á tímum eins og nú sem hafa þarf í heiðri hin gullnu hugtök jafnrétti og bræðralag. Að allir hafi sama tækifæri til lífsins. Nú ríður á að við vinnum saman og hjálpumst að. Ekki að sumir komist upp með að nota lítilmagnann sem flotholt til að bjarga sjálfum sér.

Öryrkjabandalag Íslands hélt aðalfund sinn 4. október sl. og sendi frá sér ályktun sem hefst á þessa leið, með leyfi forseta:

„Slæmt efnahagsástand þjóðarinnar hefur haft alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir fjölda öryrkja, sjúklinga og ellilífeyrisþega. Sú staðreynd að einstaklingar hafa 130 þús. kr. á mánuði eftir skatt og hjónafólk 116 þús. kr. hvort eftir skatt til framfærslu er engan veginn ásættanlegt. Aðalfundur ÖBÍ skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða með markvissum hætti og hækka bætur almannatrygginga til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi.“

Þetta var áður en botninn datt úr efnahagslífi þjóðarinnar. Áður en upp komst að búið var að veðsetja land og lýð og hneppa næstu kynslóðir í skuldaklafa. Hér var fyrst og fremst verið að vitna til aðgerða síðasta vetrar þegar ákveðið var að hækka lægstu laun um 18 þús. kr. á mánuði. Þá fengu öryrkjar 4–5 þús. kr. eða um 4% hækkun.

Ég er ekki að gleyma þeim lagfæringum sem gerðar voru í vor og sumar þegar skerðing bóta vegna tekna maka var afnumin og þegar frítekjumarkið var hækkað í 100 þús. kr. á mánuði. Hvort tveggja löngu tímabærar aðgerðir sem öryrkjum hafði verið lofað um árabil. Sumir flokkar buðu hins vegar miklum mun betur í kosningaloforðum sínum.

Rétt er að minna á að þegar herti að við upphaf tíunda áratugs síðustu aldar var gerð svokölluð þjóðarsátt sem m.a. fól í sér að launafólk með lágar eða miðlungstekjur, að ógleymdum elli- og örorkulífeyrisþegum, tók á sig skerðingar. Því var lofað að þeim yrði bætt það upp um leið og betur áraði. En í öllu útrásar- og græðgisfylliríinu gleymdust þessir hópar eða nutu að minnsta kosti ekki nema brotabrots af gróðanum. Samt er alveg ljóst að það voru ekki þessir hópar sem settu landið á hliðina með græðgi sinni.

Nú verða þessir hópar að fá forgang og það strax. Nú þegar óðaverðbólga geisar eru allir á sama báti hvað varðar húsnæðis- og bílalán sem margfaldast við hver mánaðamót. En fáir eru jafnháðir bifreiðum og þeir sem stríða við einhvers konar hreyfihömlun. Undantekningarlaust verða menn að bæta í þegar þeir skipta um bifreið á fimm ára fresti og að sjálfsögðu eru elli- og örorkulífeyrisþegar með húsnæðislán líkt og aðrir þegnar þessa lands. Það er því forgangsverkefni að finna leiðir til að aðstoða þessa hópa sérstaklega sem hafa mjög takmarkaða möguleika á að auka tekjur sínar.

Að þessu sögðu vil ég sérstaklega brýna félags- og tryggingamálaráðherra til áframhaldandi góðra verka því oft var þörf en nú er nauðsyn. Má þar minna á samning Sameinuðu þjóðanna sem undirritaður var 30. mars sl. þar sem aðildarríkin skuldbundu sig til að viðurkenna rétt fatlaðra og fjölskyldna þeirra til betri lífskjara og lífsskilyrða.

Það er sama hvert litið er. Samfélagsleg úrræði eru þau einu sem duga í slíkum hremmingum sem nú ganga yfir. Nú þegar bankarnir eru komnir í eigu þjóðarinnar er áríðandi að þeir verði nýttir til að jafna byrði af verðtryggingunni. Seðlabankinn verður að lækka stýrivexti enn meir og er óskiljanlegt að það hafi ekki gerst fyrr.

Einu verð ég að koma að áður en ég hverf aftur af þingi í lok vikunnar. Það er sú þjóðarskömm sem kallast vasapeningar. Allir flokkar hafa verið sammála um að afnema þá smán. Mikið vildi ég gefa til að geta sagt að núverandi félags- og tryggingamálaráðherra gangi í þetta og klári sem allra fyrst. — Góðar stundir.