136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:22]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Umræðuefni dagsins er annars vegar: Hvernig gat þetta gerst? Og hins vegar: Hvað skal til bragðs taka? Það er dálítið sérstakt að umræðan skuli fara fram á þessum degi, 15. október, sem er í raun örlagadagurinn í bankakreppunni á Íslandi. Það er ekki fyrr en á þessum degi sem brimskaflinn þurfti að skella á okkur sem þýðir að við höfðum meiri tíma. Við þurftum ekki að vera á undan öðrum löndum í þeim miklu erfiðleikum sem að steðja. En ákvörðunartaka umrædda helgi, 27. og 28. september, verður lengi í minnum höfð og ekki síður það sem kom í framhaldinu. Mjög margt bendir til að ákveðið óðagot hafi einkennt vinnubrögð af hálfu Seðlabanka og ríkisstjórnar og framkoma ríkisstjórnar Bretlands í framhaldinu er náttúrlega algerlega mál út af fyrir sig og formaður Framsóknarflokksins hefur farið vel yfir það.

Það er hárrétt, sem hefur komið fram hjá forsætisráðherra, að regluverkið sem spilað er eftir á fjármálamarkaði kemur að mestu leyti frá Evrópusambandinu og það hefur verið ærið verk að innleiða alla þá löggjöf í íslenskan rétt og það þekkja þingmenn best. En svo virðist sem þessi löggjöf geri ekki ráð fyrir því fyrirbæri, ef þannig má að orði komast, sem íslenski fjármálamarkaðurinn hefur þróast í. Það eru engar sérstakar reglur t.d. um getu og stærð lánveitenda til þrautavara fyrir bankakerfið.

Vissulega hefur Seðlabankinn það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika og samkvæmt orðum formanns bankastjórnar Seðlabankans hafði hann margvarað við ástandinu. Það sem hér verður að koma fram er hverjir það voru sem hann varaði við. Voru það eingöngu bankastjórarnir eða var það ríkisstjórnin líka? Það er svo að sjálfsögðu umhugsunarefni að ekkert var gert með þær viðvaranir sem komu fram.

Hæstv. forseti. Hvers vegna var skýrslu bresku hagfræðinganna, sem margoft hefur verið nefnd í umræðunni, ýtt til hliðar? Samkvæmt fréttum dagsins var leitað til þessara sérfræðinga á þessu ári af hálfu Landsbankans og þeir beðnir um að skrifa skýrslu um ástæður efnahagsörðugleika sem Ísland og bankarnir stæðu andspænis. Í júlímánuði var skýrslan kynnt. Viðstaddir voru hagfræðingar frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, einkageiranum og háskólasamfélaginu. Hver varð niðurstaða þessara sérfræðinga frá Bretlandi? Hún hefur lítið verið rædd hér hvernig sem á því stendur.

Niðurstaða þeirra var sú að landið gæti haldið alþjóðlegu bankakerfi sínu en það krefðist þess að það skipti um gjaldmiðil, það þyrfti að leggja af krónuna og leita inngöngu í Evrópusambandið til að verða fullgildur þátttakandi í myntbandalaginu og taka upp evru sem gjaldmiðil. Eins gæti Ísland haldið gjaldmiðlinum en þá þyrfti að flytja alþjóðlegan hluta bankakerfisins úr landi. Viðskiptaumhverfið réði ekki við að halda alþjóðlegri starfsemi bankanna í landinu og hafa um leið eigin gjaldmiðil.

Hvers vegna skyldi ekki neitt hafa verið gert með þessa niðurstöðu? Ástæðuna vita flestir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn, með Davíð Oddsson í broddi fylkingar, og Sjálfstæðisflokkurinn, undir forustu Geirs H. Haarde, ræðir ekki þann möguleika að ganga í Evrópusambandið. Þetta er orðið íslensku þjóðfélagi dálítið dýrt. En ég lýsi að sjálfsögðu ánægju með skrif varaformanns flokksins, sem hafa komið fram nýlega, þau eru vísbending um breytta afstöðu í flokknum í Evrópumálum — hæstv. menntamálaráðherra kom þó ekkert inn á það í máli sínu áðan. En ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni að það þarf allt að vera undir í þessari umræðu.

Hvað er að gerast einmitt í dag? Leiðtogar Evrópusambandsins funda um fjármálakreppuna. Þeir vilja skjóta styrkari stoðum undir evrópska banka en áætlunin hljóðar upp á milljarða evra. Búist er við að leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 27 muni styðja áætlunina sem ríkin 15 sem eru í myntbandalagi Evrópu samþykktu á sunnudag. Þeir vilja affrysta bankakerfið þannig að bankarnir hefji aftur að lána hver öðrum og efla markaðinn. Á sama tíma erum við Íslendingar að pukra ein í okkar horni — og þegar ég segi okkar horni þá sé ég fyrir mér Evrópukortið eins og við höfðum það fyrir augunum í barnaskóla. Við vorum þar vissulega úti í horni og þar erum við og erum aðallega að ræða við Rússa um hugsanlegt lán. Reyndar hafa lánalínur til Norðurlandanna verið virkjaðar að einhverju leyti en samkvæmt fréttum í gær taldi seðlabankastjóri ekki fyrr en núna að ástandið á Íslandi væri það slæmt að ástæða væri til að virkja þessa möguleika.

Fréttir af erfiðleikum íslenskra fyrirtækja við að koma vörum á markað erlendis eru samt ekki nýjar. Fréttir af fyrirtækjum sem ekki geta leyst út vöru eru samt ekki nýjar. Nei, það átti að þráast við. Ég hef áhyggjur af að Ísland einangrist frá umheiminum og ég hef áhyggjur af að við verðum vinalaus í þessum opna heimi með þessu áframhaldi.

Hæstv. forseti. Icesave er stórt mál sem ekki sér fyrir endann á. Fjármálaeftirlitið er í lykilhlutverki á markaði og getur kallað fram hvaða upplýsingar sem er. Spurningin sem liggur í loftinu er sú hvernig það gat gerst að Icesave gæti hafið sams konar starfsemi í útibúi Landsbankans í Hollandi í júní þar sem Fjármálaeftirlitið hafði verið að ráðleggja Landsbankanum að koma því fyrir í dótturfyrirtæki í Bretlandi af því að útibúaleiðin væri of áhættusöm. Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra: Fór Fjármálaeftirlitið þess á leit við viðskiptaráðuneytið að styrkja lagagrundvöll eftirlitsins þannig að það gæti komið í veg fyrir að það sama gerðist í Hollandi? Ég minni á að viðskiptaráðherra hefur tvívegis beitt sér fyrir bráðabirgðalagasetningu á sínum stutta ferli sem ráðherra þannig að varla hefði verið fyrirstaða að setja eins og ein þess háttar lög til viðbótar ef það hefði hjálpað.

Hæstv. forseti. Hvað er fram undan? Það þarf að byggja upp nýtt Ísland, segja ýmsir, og það þarf að hafa hraðar hendur. En það er að mínu mati ekki nægilega traustvekjandi að fá fréttir af því á meðan á þessari umræðu stendur að efnahagsráðgjafi forsætisráðherra hafi sagt upp störfum. Hvað er að gerast? Ríkir alger ringulreið á stjórnarheimilinu? Þetta finnast mér ekki vera góðar fréttir, burtséð frá því hvort þessi einstaklingur hafi verið rétti einstaklingurinn í starfið. Að mínu mati þarf að ræða sem allra fyrst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að koma hér inn með aðstoð og ráðgjöf og það þarf að auka möguleika á menntun þess fólks sem missir vinnuna. Við eigum enn þá marga möguleika, Íslendingar, ef við höldum rétt á málum.

Nýting orkulinda til lands og sjávar verður áfram mikilvæg. Ég tek eftir því að þrátt fyrir neikvæða umræðu um útrás hefur fólk enn trú á því að útrás á þekkingu í orkugeiranum sé eitthvað sem við eigum að einbeita okkur að. Ég tel því mikilvægt að mennta fleiri Íslendinga á því sviði og bendi m.a. á að við orkuskólann á Akureyri, RES-orkuskólann, er boðið upp á meistaranám á því sviði sem er rannsóknartengt og alþjóðatengt. Ég tel að þar geti verið tækifæri fyrir Íslendinga eins og svo víða annars staðar í menntun, það hefur komið fram hjá hæstv. menntamálaráðherra hér í umræðunni.

Þau eru vissulega mikið til umræðu núna gömlu gildin og það er vel. Ég vil engu að síður taka undir með hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir að þessir atburðir séu ekki andlát frjálsrar verslunar. Við getum allflest dregið saman í neyslu en þessi nýja staða kemur mjög illa við marga Íslendinga og hugur okkar er hjá þeim.

Að síðustu, hæstv. forseti, er það ímynd Íslands. Við höfum lagt mikið á okkur við að efla og styrkja hana. Nú hefur hún beðið hnekki og verk er að vinna í þeim efnum. Þar verðum við öll að taka höndum saman um að vinna okkar vinnu.