136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:32]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Íslendingar horfa upp á þrot íslensku bankanna. Erlendis eru miklar skuldir sem ríkið, skattgreiðendurnir eiga að borga samkvæmt yfirlýsingum forsætisráðherra og viðskiptaráðherra. Margir sjá fram á að fá ekki peningana sína út úr gjaldþrota bönkum vegna þess að þeir voru ekki á sparireikningum sem eru tryggðir eða á að tryggja. Í því sambandi ber að leggja áherslu á að margir voru í raun blekktir, fólk taldi sig vera að leggja peninga sína inn á öruggar sparnaðarleiðir sem reyndist svo ekki vera. Fjármálamarkaðurinn er svo margslunginn að venjulegt fólk og jafnvel þeir sem eiga að heita sérfræðingar höfðu ekki yfirsýn yfir kosti einstakra aðgerða eða ókosti. Tjón þjóðfélagsins og allra venjulegra Íslendinga er gríðarlegt. Nútíðin og framtíðin verða skuldsett miðað við yfirlýsingar þeirra ráðamanna sem ég gat um áðan og spurningin er: Hvernig gat þetta gerst?

Miðað við reglur sem gilda um greiðslur af reikningum fjármálafyrirtækja þá hefur verið talað um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að þar verði gengið mun lengra en almennar reglur ná, þ.e. almennar reglur um neytendavernd. Þegar svo er liggur náttúrlega fyrir að það er Alþingis að ákveða hvernig með það skuli fara og þá er spurningin: Eiga þá ekki allir að fá greitt sem höfðu reikninga í þessum lánastofnunum? Hverja á að skilja eftir? Þegar vikið er frá hinum almennu reglum, frá þeirri löggjöf sem mörkuð hefur verið og teknar ákveðnar geðþóttaákvarðanir verður að gæta þess að jafnræðis og jafnréttis sé gætt. Það getur verið vandmeðfarið við aðstæður eins og þessar.

Það er eðlilegt að nú sé spurt: Hvernig gat það gerst að allur bókfærður hagnaður af bönkum undanfarin ár, samanlagður hagnaður undanfarin þrjú ár á yfir 500 milljarða skuli allt í einu hafa gufað upp? Hvar er allt þetta fé? Er það ekki tiltækt þegar til á að taka? Var það ef til vill aldrei til? Var þetta kannski spilaborð og munum við upplifa það að unga fólkið í landinu greiði atkvæði með fótunum vegna þess að það getur betur freistað gæfunnar og leitað auðnu sinnar annars staðar en á Íslandi sem er, miðað við yfirlýsingarnar sem ég gat um áðan, skuldsett algjörlega út yfir öll mörk?

En það sem ég bjóst við að mundi koma hjá hæstv. forsætisráðherra voru upplýsingar til Alþingis og þjóðarinnar um hvort þetta hefði þurft að gerast. Voru þær aðgerðir sem gripið var til nauðsynlegar? Í ræðu sinni áðan vék hæstv. forsætisráðherra að því að nauðsynlegt væri að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Það liggur fyrir að að sjálfsögðu ber brýna nauðsyn til þess en af hverju fóru gjaldeyrisviðskiptin úr eðlilegu horfi? Það var vegna aðgerða sem gripið var til auk þess sem sú tímasprengja að hafa gjaldmiðilinn á floti hlaut einhvern tímann að springa með þeim hætti sem nú hefur gerst.

Þá vísaði hæstv. forsætisráðherra til þess að það hefði orðið mikill samdráttur í innlendri eftirspurn á undanförnum mánuðum. Það er ljóst og það vita allir sem fylgjast með íslensku þjóðfélagi. Í því sambandi talaði hann um að í dag hefði Seðlabankinn lækkað stýrivexti. Stýrivextir voru lækkaðir mjög óverulega miðað við þá ofurhæð sem stýrivextir hafa verið í. Danske Bank mat það svo að það skipti í sjálfu sér sáralitlu máli, það þyrfti að lækka stýrivexti mun meira. Ég tel að stýrivaxtabrjálæði Seðlabankans hafi gjörsamlega keyrt yfir öll mörk og drepið niður framtak íslensku þjóðarinnar. Það eru fyrst og fremst rangar aðgerðir Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar sem við horfum framan í í dag. Í raun hefði Seðlabankinn þurft að lækka stýrivexti sína niður í svipaða tölu og seðlabanki Evrópu hefur gert og jafnvel niður fyrir það til að koma íslensku atvinnulífi í virkilegan gang. (GÁ: Heyr, heyr.)

Varðandi ummæli hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, um aðgerðir Breta, um aðgerðir Gordons Browns, flokksbróður hæstv. iðnaðarráðherra, þá er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skyldu ekki hafa beitt sér af alefli og leitað allra færra leiða. Af hverju tókum við það ekki upp hjá Atlantshafsbandalaginu þegar bandalagsþjóð beitti hryðjuverkalögum gagnvart bandalagsþjóð sinni? Af hverju tókum við þetta ekki upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Af hverju slitum við ekki stjórnmálasambandi við Breta þegar þeir beittu okkur hryðjuverkalögum? Það var engin ástæða til að leggjast á hnén gagnvart Bretum. Við höfum fyrr átt í útistöðum við Breta og þá var það forsætisráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem tók þá afdrifaríku ákvörðun að slíta stjórnmálasambandi við Breta þegar framferði þeirra keyrði um þverbak og þá fyrst fóru hlutirnir að gerast og bandalagsþjóðir okkar að gera ráðstafanir til að tryggja það að Ísland nyti ákveðinna réttinda en þyrfti ekki að lúta í (GÁ: Sama gerði Geir.) gras fyrir stórþjóðinni.

En ég spyr og ég bjóst við að heyra það frá forsætisráðherra — hann talar um uppgjör við fortíðina, það sem við stöndum í núna er fyrst og fremst spurning um nútíðina, uppgjörið við fortíðina kemur síðar — en spurningin sem á okkur brennur núna er þessi: Var nauðsynlegt að fara þá leið sem farin var? Maður sér í erlendum blöðum sem fjalla um fjármál m.a. í Financial Times frá 13. október eða á mánudaginn en þar talar blaðið um hin hræðilegu mistök sem séu á bak við íslensku fjármálakreppuna og í blaðinu segir að íslensku bankarnir hafi verið taldir of áhættusamir af því að Seðlabanki Íslands virtist ekki hafa traust sem þrautavaralánveitandi. Og um leið var ríkisstjórnin og Seðlabankinn ekki talin nægilega traust af því að þau gætu þurft að taka bankana yfir.

Hver er þá spurningin? Báru slæmir bankamenn ábyrgðina á þessum hlutum sem sumir hafa haft stór orð um eða var það vegna þess að við höfðum byggt upp stjórnkerfi sem var ekki nægilega virkt og sem brást þegar á reyndi? Spurningin er að sjálfsögðu um þetta. Um þetta hefðum við þurft að fjalla og þetta hefði þurft að vera þungamiðjan í þeirri skýrslu sem hæstv. forsætisráðherra flutti Alþingi um gang mála.

Þá segir einnig í umfjöllun Financial Times frá því á mánudaginn að allir íslensku bankarnir hafi verið gjaldfærir og allir sýnt góða niðurstöðu í hálfs árs uppgjöri og enginn þeirra hafði það sem blaðið kallaði „eitrað eða ónógt öryggi“. Þetta er niðurstaða einna fremstu sérfræðinga sem um er að ræða á alheimsvísu í efnahagsmálum. Og þá er niðurstaðan sú að það voru ríkisstjórnin og Seðlabankinn sem brugðust. Það er sama niðurstaða og rektor Háskólans á Bifröst, sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vísaði í áðan, komst að og rakti fyrir nemendum sínum í gær.

Fleiri fjalla um málið með þessum hætti erlendis og það er iðulega þannig að fjallað er með öðrum hætti um efnahagsmál erlendis en hér á landi. Meðal annars segir í Sunday Times frá því á sunnudaginn var að Ísland hefði fengið mýkri lendingu ef Seðlabankinn hefði lækkað stýrivexti sína og sett bremsu á útlán, eins og við í Frjálslynda flokknum höfum verið að leggja áherslu á að þyrfti að gera. Við höfum talað um mannúðlega markaðshyggju, ekki græðgishyggjuna sem hefur riðið hér röftum frá því um 2000. Það þurfti að gera hlutina öðruvísi.

Ég er sammála þeim sem hafa talað um að við þurfum að sjálfsögðu að glíma við þann vanda sem um er að ræða sameiginlega. Við þurfum að sækja fram sameiginlega sem þjóð. Að sjálfsögðu gerum við það. En til þess að við getum sótt fram og til þess að við tökum réttar ákvarðanir og komumst að réttum niðurstöðum þurfum við að hafa forustu sem dugar. Ekki aðeins ríkisstjórn heldur líka Alþingi og líka Seðlabanka. Allir þurfa að vinna saman og það þarf að vera skilvirk forusta. Og ég segi að eitt af því fyrsta sem Alþingi á að gera á tímum þrenginga er að skera niður hjá sjálfu sér, að horfast í augu við sjálft sig, eftirlaunin og allt sem hefur verið hlaðið utan á.

Ríkisstjórnin þarf að veita forustu og ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er nauðsynlegt að efna til kosninga eins fljótt og auðið verður þegar þjóðin hefur stýrt í gegnum mesta brimskaflinn til að þjóðin fái þá forustu sem hún á skilið.