136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:58]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Íslenska þjóðin stendur nú á tímamótum. Reynsla síðustu daga hefur verið okkur öllum mjög erfið en ber þess merki að sá heimur og það fyrirkomulag sem við höfum lifað við er að mörgu leyti að líða undir lok. Það hefur miklar og margvíslegar afleiðingar fyrir samfélagið, við stöndum á krossgötum og verðum að velja þá leið sem við viljum og ætlum að fara til móts við framtíðina.

Undanfarnar vikur og daga hafa verið teknar stórar og afdrifaríkar ákvarðanir. Það hefur komið fram gagnrýni á margar þeirra og framganga valdamikilla manna verið gagnrýnd. Hér hefur m.a. verið vísað til gagnrýni rektors Háskólans á Bifröst sem hefur haft uppi stór orð um þessi mál og margir spyrja sig í dag: Getur verið að hann hafi rétt fyrir sér?

Hér hefur verið minnst á skýrslu breskra hagfræðinga sem vöruðu við því að íslenska fjármálakerfið gæti hrunið. Það var ekkert gert með þessi aðvörunarorð (Gripið fram í: Það var mikið gert) og margir spyrja sig hvers vegna og vilja fá svör við því. Það ástand sem skapast hefur í alþjóðlegum fjármálaheimi er að miklu leyti afleiðing græðgi, metorðagirndar, botnlausrar peningahyggju og trúnaðarbrests. Við höfum upplifað það allt hér í samfélagi okkar og verðum að segja skilið við það. Við sem þjóð verðum að setja okkur ný markmið til framtíðar, endurmeta gildi okkar og hafa þau að leiðarljósi.

Eitt allra mikilvægasta verkefnið og viðfangsefnið nú er að tryggja að atvinnulífið missi ekki mátt og að hér verði ekki mikið atvinnuleysi. Það verður að gera allt til þess að halda atvinnulífinu gangandi. Stýrivextirnir verða að lækka meira en ákveðið var í morgun, það finnast ekki einföld rök fyrir því að þeim sé haldið í himinhæðum.

Hæstv. forseti. Það eru margar spurningar sem liggja í loftinu og þarf að leita svara við. Eftir hvaða hugmyndafræði vinna skilanefndir bankanna? Hvernig verða eignir þeirra meðhöndlaðar sem felast í skuldum atvinnulífsins og einstaklinga? Hvernig verða ákvarðanir teknar um hvaða atvinnufyrirtæki lifa og hver geta haldið áfram? Kemur til greina að fá erlenda sérfræðinga til að vinna með skilanefndunum að því mikilvæga verkefni sem þær vinna? Verður ekki að gera það til að skapa sem mest traust á verk þeirra?

Hver er þjóðréttarleg staða Íslands gagnvart skuldbindingum um innstæðutryggingar, t.d. hjá Icesave og hvernig lítur samningurinn við Holland út? Er hann í samræmi við skuldbindingarnar? Spyr sá sem ekki veit. Er samningurinn við Hollendinga þeim og öðrum þjóðum mikilvægur til að koma í veg fyrir að innstæðueigendur taki út fjármuni sína og tæmi erlenda banka í viðkomandi löndum, að upp komi svonefnt „run“? Á Ísland að taka á sig slíka ábyrgð?

Það hafa komið fram mjög misvísandi upplýsingar og yfirlýsingar um raunverulega ábyrgð ríkisins á innstæðum í Icesave. Það mál er líklega það stærsta og mikilvægasta hvað varðar efnahagslega framtíðarhagsmuni þjóðarinnar og við verðum að fá botn í það sem allra fyrst.

Síðan er spurt: Hverjir eru heildarhagsmunir okkar Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi? Liggur fyrir eitthvert mat á því hver heildarmyndin er varðandi fjárhagslegar ábyrgðir okkar, t.d. varðandi bankastarfsemi á við Icesave?

Almenningur spyr hvort raunveruleg rök og efni séu fyrir öllum yfirlýsingum ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi inneignir fólks í fjármálafyrirtækjum. Tugir þúsunda Íslendinga eru í mikilli óvissu um fjárhagslega framtíð sína og það má ekki undir neinum kringumstæðum senda þeim misvísandi skilaboð eða vekja með þeim óljósar væntingar með óvarlegum yfirlýsingum. Ég er hræddur um að það hafi þegar verið gert.

Alþingi verður að fjalla um og greina hvað fór úrskeiðis, hvar ábyrgðin liggur o.s.frv. Við verðum og eigum að gera það bæði til þess að læra af því og til þess að gera okkur grein fyrir því hvort nauðsynlegt er að lagfæra löggjöf og regluverk. Almenningur kallar eftir því og við verðum að gera það á faglegan hátt í samstarfi við færustu sérfræðinga á hverju sviði. Í því sambandi fagna ég yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra í framsögu hans og einnig því frumkvæði sem dómsmálaráðherra hefur gert grein fyrir.

Virðulegur forseti. Nú skiptir miklu að við göngum fram af ábyrgð með bjartsýni og trú á framtíðina. Við eigum mörg tækifæri. Við höfum áður staðið frammi fyrir erfiðum málum og jafnan unnið okkur út úr vanda og erfiðum aðstæðum. Við sem þjóð verðum nú að setja okkur ný markmið, móta nýja framtíðarstefnu og ná samstöðu um þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað í framtíðinni. Það er verkefnið fram undan nú þegar við göngum til móts við nýja tíma.