136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:08]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hef hlustað á þessar umræður af mikilli athygli og ég fagna því hvað þær hafa verið málefnalegar, æsingalausar og ábyrgar. Það er mjög mikilvægt að við komum þannig fram sem samstillt heild hér á Alþingi þegar við tökumst á við þann gríðarlega vanda sem nú blasir við okkur. Enn á ný vil ég fagna þeirri samstöðu sem hér virðist almennt vera gagnvart þessum vanda.

Það má margt segja um orsakir hans. Ég fór vel yfir hann í ræðu minni, ég hef gert það margoft áður en ég tel og vil láta það koma fram að bankarnir hefðu átt möguleika og hefðu getað komist í gegnum þessa erfiðleika ef bankakreppan, hin alþjóðlega kreppa, hefði ekki skollið á af jafnmiklum þunga hér á landi og raun bar vitni. Að vísu má segja að margt í verkum þeirra og störfum hafi verið glannalegt, sérstaklega þegar horft er til baka, og að það hefði átt að gera ráðstafanir til að minnka bankakerfið sem hlutfall af þjóðarframleiðslu okkar og hagkerfi. En ég tel eigi að síður að hefði þeim unnist tími til að vinna sig úr þeim vanda áður en holskeflan reið endanlega yfir hefði þetta getað bjargast. Því miður varð raunin ekki sú.

Nú segja menn: Íslenska ríkisstjórnin og Seðlabankinn gerðu mistök á þessari leið. Það getur vel verið að gerð hafi verið einhver mistök, það væri mjög undarlegt að takast á við svona erfiðleika án þess að einhvers staðar væru gerð mistök. Ég hygg þó að það sé alveg sama, þegar menn líta í baksýnisspegilinn, til hvaða ráða hefði verið gripið þegar komið var fram undir lok septembermánaðar. Niðurstaðan blasti við, bankarnir voru að komast í þrot vegna þess að þeir gátu hvergi endurfjármagnað sig. Þess vegna breytti í raun og veru litlu til hvaða ráða var gripið af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabanka hvað það varðar, þroti þeirra varð ekki afstýrt. Menn geta komið eftir á og sagt: Ef stjórnin hefði gert þetta eða Seðlabankinn hitt hefði þetta kannski farið eitthvað öðruvísi. Ég tel að það sé rangt vegna þess að niðurstaðan varðandi bankana blasti við eftir þá atburði sem gerðust vestur í Bandaríkjunum 15. september þegar Lehman-bræður fóru á hausinn með þeim afleiðingum sem það hafði á alþjóðafjármálakerfið og allir þekkja.

Nú er verið að reyna að reisa við bankakerfi um allan heim með þvílíkum fjárveitingum og stuðningi hins opinbera að annað eins hefur aldrei sést. Ganga þar fremst í flokki forusturíki alþjóðakapítalismans, Bandaríkin og Stóra-Bretland, og beita hiklaust ríkissjóðum sínum til þess að koma hér til aðstoðar. Þau standa ekki frammi fyrir því sem ríki að nánast allt bankakerfi þeirra hafi verið komið að fótum fram þó að margir stórir og fornfrægir bankar hafi mátt lúta í lægra haldi gagnvart þessum ósköpum. Vandi okkar er hins vegar sá að langstærsti hlutinn af bankakerfi okkar voru þeir þrír bankar sem nú hafa átt við erfiðleika að stríða sem við erum nú að fást við afleiðingarnar af.

Ég tel að sú leið sem við fórum sem Alþingi samþykkti og lagði blessun sína yfir í síðustu viku hafi verið hin rétta við þessar aðstæður og nú er unnið að því á öllum vígstöðvum að koma þessum málum í heila höfn eftir því sem aðstæður frekast leyfa. Það er gert í skilanefndum bankanna þriggja, það er gert innan nýju bankanna sem nú er verið að endurreisa. Það er gert á vettvangi Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, í ráðuneytunum og annars staðar í okkar opinbera kerfi þar sem þessi mál eru til umfjöllunar.

Ég tel að allir sem að þessum málum koma með einhverjum hætti séu að reyna að gera sitt besta og við höfum leitað til erlendra ráðgjafa sem þekkja til mála þessum skyldum til þess að hjálpa okkur að greiða úr því að það vitum við, eins og hv. formaður Framsóknarflokksins sagði, að við aðstæður sem þessar er þess aldrei langt að bíða að hrægammar, innan lands og utan, gefi sig fram með sínum hætti. Það þarf að verjast þeim, það þarf að verja eignirnar sem eftir eru í bankakerfinu og svo þarf að nýta þær með sem allra skynsamlegustum hætti til að standa skil á skuldum, innstæðum og síðan að sjálfsögðu til áframhaldandi uppbyggingar hérna í landinu. Það er verkefnið og það er vissulega risavaxið eins og margoft hefur komið fram. Við sem berum ábyrgð á þessum málum í dag ætlum ekki að hlaupa frá verkinu eða gefast upp í miðjum klíðum. Við erum í miðjum brimgarðinum og við ætlum okkur að ná landi á nýrri strönd — eins og formaður Framsóknarflokksins mundi orða það — á hinu nýja Íslandi sem mun rísa eftir að við erum komin í gegnum þessar hremmingar.

Gátum við séð þetta fyrir? Ja, menn geta verið vitrir eftir á. Ég tel að ég sé búinn að svara þeirri spurningu með því að fullyrða bankarnir hefðu getað komist í gegnum erfiðleikana ef þeir hefðu ekki fengið náðarhöggið nú síðast í september ofan í það sem yfir þá hefur gengið frá því að undirmálslánakreppan byrjaði í Bandaríkjunum síðla sumars (GÁ: Og helvítis Bretinn.) í fyrra. Það bætti svo ekki úr skák, eins og hv. þingmaður kallar hér fram í, hver framkoma Breta var í okkar garð í síðustu viku vegna þess að ég tel að Kaupþing hefði átt möguleika á að komast í gegnum þetta ef það hefði ekki fengið svo óréttmæta meðferð sem raun bar vitni. Þess vegna veitti Seðlabankinn þeim sérstakt risavaxið þrautavaralán, með góðum tryggingum að sjálfsögðu, sem allir töldu að mundi duga bankanum til að fleyta sér yfir mesta vandann.

Menn hafa talað hér mikið um Bretland. Ég ætla að bæta því við að auðvitað þurfum við samstarf við bresku ríkisstjórnina um að komast í gegnum þetta. Við þurfum t.d. samstarf um að gera okkur þann mat úr eignum Landsbankans sem hægt er og Kaupþings í Bretlandi. Ég tel að þakkarvert sé að breska ríkisstjórnin beitti sér fyrir láni til Landsbankans upp á 100 milljónir punda fyrr í þessari viku til að rekstri bankans væri hægt að halda áfram til að varðveita innviði hans og eignir. Ég tel að það hafi þó bætt úr skák miðað við það ástand sem upp var komið. Það snýr að Landsbankanum.

Hitt er svo annað mál að ég tel að það sé ófyrirgefanlegt að beita lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn Íslendingum. Ég tel afar ólíklegt, ef ekki óhugsandi, að það hefði verið gert gagnvart einhverri stærri og voldugri þjóð en okkur. Því miður horfir það þannig við mér. Hitt er svo annað mál að í þessum lögum eru ákvæði sem hugsanlega mætti beita við aðrar aðstæður en það breytir ekki eðli málsins að fyrst og fremst er þetta löggjöf sem ætluð er til þess að varna árás hryðjuverkamanna. Ég hélt að við værum bandamenn Breta og Atlantshafsbandalagsríkjanna allra í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Við höfum tekið málið upp á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og kvartað undan þessu og munum fylgja því eftir þar sem við höfum aðstöðu til. En ég legg áherslu á að við munum þurfa að eiga gott samstarf við breska ríkið, við bresk fyrirtæki — fyrirtæki okkar þurfa að gera það áfram — og að sjálfsögðu við breskan almenning sem við höfum alla tíð litið á sem vini okkar.