136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:42]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil koma inn á ekki alveg óskylda hluti þeim sem hafa verið í umræðunni. Það sem ég hef einkanlega áhyggjur af við þær aðstæður sem nú steðja að íslensku þjóðarbúi og íslenskri atvinnu er einmitt matvælafrumvarpið sem liggur fyrir þingnefnd. Ég hef líka áhyggjur af fréttum um, nú síðast á fimmtudaginn í síðustu viku, að það sé staðfastur vilji ráðherra að koma frumvarpinu í gegn. Í ljósi þeirra frétta og þeirra stórfelldu breytinga sem orðið hafa í samfélaginu á mjög stuttum tíma til hins verra vil ég spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga og svo svör geti verið skýr og skorinorð skal ég hafa þetta já/nei spurningar:

Herra forseti. Ég spyr hvort landbúnaðarráðherra sé orðinn sá Evrópusinni, eins og sagt var frá í einum af Evrópufréttamiðlum fyrir nokkrum dögum, að hann ætli sér að keyra þetta frumvarp í gegn í blóra við hagsmuni bænda, hvort ekki komi til greina að afturkalla frumvarpið alveg og leggja það í salt þar til um hægist í hagkerfinu. Þriðja já/nei spurningin er ef það er ekki möguleiki að taka frumvarpið til baka, hvort það komi til greina að tryggja að frumvarpið verði með þeim hætti að ekki verði flutt inn hrátt kjöt, hvorki hvítt ket né annað, því bæði ógnar það matvælaöryggi en eins og staðan er núna ógnar það líka störfum á höfuðborgarsvæðinu þar sem atvinnuleysi á eftir að verða hvað erfiðast, en það fara líklega jafnmörg störf með því eins og færu ef álverið í Straumsvík lokaði alveg.

Ég mun fylgja þessum spurningum betur eftir en ég vil fá skýr svör, já eða nei. Þetta eru þrjár já/nei spurningar sem ég vona að hæstv. ráðherra geti gefið svar við, bæði þinginu og þeim fjölda bænda í hvíta kjötinu og fleiri greinum sem eru í rauninni í mikilli óvissu með rekstur sinn.